145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

siðareglur ráðherra.

[11:17]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. atvinnuvegaráðherra og verðandi hæstv. forsætisráðherra. Mig langar til að spyrja út í fílinn í stofunni, sem er að við erum hingað saman komin ekki við einhverjar venjulegar aðstæður heldur í kjölfar fordæmalauss ástands, í kjölfar algers siðrofs sem hefur komið í ljós í íslenskum stjórnmálum. Síðustu dagar í þinghúsinu og í kringum þinghúsið hafa verið algjör farsi sem náði auðvitað ákveðnu hámarki í gærkvöldi með furðulegu leikriti í stigum Alþingis og bakherbergjum. Nú horfum við sem sagt fram á nýja útgáfu af ríkisstjórn.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra um það að grunnur eða upphaf þessarar miklu bylgju, þessa siðrofs sem fólk upplifir, er staða ráðamanna, hvernig ráðamenn hafa hagað sínum málum, hvernig þeir hafa umgengist hagsmunaskráningu, reglur og siðareglur og slíkt. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra í nýrri útgáfu af ríkisstjórn, sem við vitum þó alla vega að nýtur trausts formanns Sjálfstæðisflokksins og formanns Framsóknarflokksins en við vitum kannski ekki miklu meira en það: Hvernig hyggst hann haga málum siðareglna ráðherra? Hvernig mun hann ganga eftir því að ráðherrar ríkisstjórnar sinnar muni sinna þeim málum? Getur ráðherra svarað mér því núna?