145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

siðareglur ráðherra.

[11:21]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég á eiginlega bágt með að trúa því að hæstv. verðandi forsætisráðherra standi enn á því að kjörnum fulltrúum beri ekki annað en að starfa eftir lögum og reglum, að ekki sé krafa um aukið siðferði kjörinna fulltrúa. Meðal helstu vandræða hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem er það víst enn þá, voru túlkanir hans á siðareglum ríkisstjórnarinnar, hvort þær væru í gildi eða ekki, túlkanir um hvenær og hvað þyrfti að setja í hagsmunaskráningu o.s.frv. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til hæstv. atvinnuvegaráðherra hvernig hann hyggist haga málum siðareglna ríkisstjórnar sinnar þegar hann tekur við embætti og hvort í ljósi þess ástands sem við höfum verið að upplifa (Forseti hringir.) síðustu dagana í boði ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) standi ekki til að biðjast afsökunar (Forseti hringir.) á því ástandi og því sem á hefur gengið. Það er eiginlega óskiljanlegt að það sé (Forseti hringir.) ekki löngu gert.