145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

trúverðugleiki ráðherra.

[11:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er sannfærður um að sú breyting sem varð á forustu ríkisstjórnarinnar núna á síðustu dögum muni leiða til betri tíma í íslensku samfélagi og að stjórnmálin eigi eftir að verða betri.

Ég er þeirrar skoðunar að forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson og hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, séu menn sem hægt er að ræða við. Það er talsamband við þá. Þetta eru góðir og grandvarir menn.

En sú staða sem við erum í núna snýst ekki um það hvort þeir séu góðir eða slæmir. Hún snýst ekki heldur um það hvort þeir hafi gerst brotlegir við lög eða ekki. Hún snýst um það hvort hægt sé að treysta þeim. Hvort traust sé á milli almennings og ríkisstjórnar. Það traust og sá trúverðugleiki verður ekki endurnýjaður með tilvísun í Sjálfstæðisflokkinn, hæstv. fjármálaráðherra.

Þess vegna er spurt: Hvað kemur ráðherra, sem er í Panama-skjölunum, til að halda því fram að hann sé besti maðurinn til að afnema gjaldeyrishöft? Hvað í atburðarás síðustu daga er til vitnis um að þessir tveir flokkar séu bestir til þess að fara með stjórn landsins og ráða þeim mikilvægu verkefnum sem fram undan eru? Ekki nokkur skapaður hlutur.

Hvað gengur hæstv. ráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins til með það að standa frammi fyrir alþjóð í tröppunum hér í þinghúsinu í gær á nærbuxunum og halda því fram að aðrir séu í rúst, að aðrir hafi skriðið hér inn og enginn annar en hann geti stjórnað landinu? Hvernig dettur mönnum það í hug, í þeirri stöðu sem birtist (Forseti hringir.) í Panama-skjölunum, að þeir skuli leysa trúverðugleikann, traustið og endurreisa trúverðugleika landsins? Í hvaða veruleika búa menn sem halda þessu fram?