145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

endurheimt trausts.

[11:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hér erum við á algjörlega makalausum tímum þar sem við erum orðin að algjöru athlægi í alþjóðasamfélaginu, allt í boði núverandi valdhafa. 70% aðspurðra vildu að hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson segði af sér. 3% treysta næstkomandi hæstv. forsætisráðherra sem ráðherra í því ráðuneyti sem hann situr nú í.

Mig langar að spyrja í ljósi allra atburðanna og í ljósi þess að það er ekki snefill af auðmýkt — það hefur enginn beðist afsökunar, það hefur enginn komið fram fyrir þjóðina á þann veg að við getum hætt að upplifa okkur eins og við séum í einhverju fáránlegu Dario Fo leikriti. Nei, áfram skal halda og benda á einhvern annan en sjálfan sig. Ég skynja að það er nákvæmlega sama hugarfar og var þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var birt og sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tjáðu sig á þann veg að þeir gætu ekki beðið eftir að þessi skýrsla hætti að þvælast fyrir.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra atvinnu- og sjávarútvegsmála hvort honum finnist nóg hafa verið gert til að endurheimta traust og trúnað gagnvart þjóðinni og alþjóðasamfélaginu. Mig langar til að spyrja hvort hæstv. ráðherra taki undir þær hótanir sem hæstv. fjármálaráðherra var með hér í gær gagnvart minni hlutanum um að ef við hleypum ekki í gegn öllum þingmálalista ríkisstjórnarinnar ætlið þið bara að hætta við að hætta við. (Gripið fram í: Það var aldrei sagt.)