145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[15:53]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja ræðu mína á að vitna í unga konu, Ástu Hlín Magnúsdóttur, en hún skrifaði í dag: „Það er mikilvægt að fólk sé meðvitað um lýðræðislegan rétt sinn og nýti hann þegar það telur þörf á, til dæmis með mótmælum, undirskriftasöfnunum, greinaskrifum eða öðru. En þeir háværustu hafa ekki endilega rétt fyrir sér. Enginn er þjóðin og almannavilji er sjaldan eða aldrei til. Það að kallað sé eftir kosningum á Austurvelli þýðir ekki endilega að það eigi að vera kosningar. Það er til dæmis líka hávær hluti þjóðarinnar sem vill takmarka mannúðarstarf og móttöku flóttamanna. Kannski mætir það fólk á Austurvöll einhverntíma, þó ég voni ekki. En sama hvað það hendir mörgum eggjum í Alþingishúsið þá hefur það ekki rétt fyrir sér. Kosningum verður flýtt vegna þrýstings úr samfélaginu. Það er gott.“

Virðulegi forseti. Það eru að verða komin þrjú ár frá því að sú sem hér stendur kom inn á Alþingi. Það eru mörg mál á þessum þremur árum sem við höfum, allir hv. þingmenn sem sitja í þessum sal, leyst saman. Við höfum náð góðum árangri sem er sýnilegur í samfélaginu. Það er ótal margt sem hvetur okkur áfram í starfi okkar daglega. Að sjá árangur fólkinu í landinu til heilla eftir mikla vinnu er góð umbun. Stór mál og lítil mál.

En svo rann sunnudagurinn síðasti upp. Það hafa verið erfiðir dagar eftir það. Á slíkum dögum getur korter í pólitík bæði liðið allt of hægt en einnig allt of hratt. Eftir stendur að það eru jú þrjú ár síðan ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við stjórn. Þann dag hófust mörg og misjöfn verkefni. Þegar við svo horfum á stöðuna, eins og vikuna sem er nú að enda, er margt sem kemur í hugann. Allt það sem unnið er að, hvað verður um það? Sumir hafa haldið því fram í ræðum dagsins að ráðherrar geri ekkert gagn. Embættismenn og sérfræðingar geri alla vinnuna og því skipti það engu máli hver stjórni landinu. Eða jú, það skiptir máli. Bara svo lengi sem það eru ekki þeir flokkar sem hafa þingmeirihluta í dag og eru í samstarfi. En til hvers er þá umræðan í dag ef það skiptir engu máli hverjir sitja í ríkisstjórn? Við höfum bæði í meiri hluta og í minni hluta unnið að þeim málum sem liggja fyrir þingi og hafa verið að fara hér í gegn. Það höfum við öll gert saman og höfum gert okkar besta.

Það hafa verið margar og sumar jafnvel skondnar samlíkingar að samstarfi flokkanna tveggja sem í gær gengu aftur í samstarf til að halda áfram með þau verk sem hófust í apríl fyrir þremur árum. Jú, það getur verið þægilegt að lesa bara þá kafla í bókinni sem henta. En þegar ég horfi yfir vikuna veit ég að Framsóknarflokkurinn hefur tekið stórt skref í þá átt sem fólkið í samfélaginu kallaði eftir. Í dag höfum við vald til þess að láta daginn í dag verða að vendipunkti í okkar starfi. Við getum látið daginn í dag verða upphaf þess þegar ráðherrar þessarar ríkisstjórnar keyra áfram þau mál sem unnið er að til að hægt verði að ganga til kosninga í haust. Við getum unnið að þeim saman.

Þær upplýsingar sem hófu þessa undarlegu tíma, þau skjöl sem fram hafa komið, við eigum að þakka fyrir þau. En fram undan eru tímar sem eiga eftir að leiða margt í ljós. Við eigum eftir að þurfa að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að allt komi upp á borðið. Þegar við tölum um að reisa við traust í samfélaginu eigum við öll að leggjast á eitt, m.a. með þeim kröfum að ríkisskattstjóri fái gögnin í hendur og geti lagst í rannsóknir á því hvort lögbrot hafi verið framin. Fyrir haustið eigum við að vinna að því að hreinsa andrúmsloftið. Við höfum verkfærin til þess. Við höfum stofnanir til þess og við höfum stofnanir sem hafa það markmið að vinna gegn slíkum hlutum, rannsaka þá og vinna úr.

Í gær tók ég á móti ungu fólki hérna í þinghúsinu. Einn úr hópnum spurði mig: Þegar þú ert orðin gömul og verður spurð hvernig líf þitt hafi verið, hverju muntu svara? Það vefst ekki fyrir mér í dag. Á hverjum degi tökum við réttar og rangar ákvarðanir en í enda dags þarf maður að vera viss um að hafa tekið fleiri réttar. Það vil ég geta sagt, að ég hafi tekið fleiri réttar ákvarðanir.

Ákvörðun í dag getur orðið til þess að við getum haldið áfram að vinna að því sameiginlega markmiði að vinna þjóð okkar vel, að við getum hreinsað andrúmsloftið til að opna fyrir betri vinnubrögðum, bæði í samfélaginu sem og á Alþingi, og að við getum klárað þau verkefni sem fyrir þinginu liggja til að geta svo gengið til kosninga. Við getum gert þetta allt saman. Því er frekar undarlegt að hlusta á það í dag að aðilar sem hafa lagt fram þá tillögu sem liggur fyrir vilji fá það staðfest að góð verk eigi eftir að komast í gegn. Það er frekar undarlegt að heyra þetta á fyrsta degi nýrrar stjórnar þegar þeir hafa ekki einu sinni fengið tækifæri til að staðfesta það fyrir þeim. Þess vegna segi ég að við eigum að hafna þeirri tillögu sem lögð er fyrir Alþingi.