145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér í dag hefur farið fram mjög merkileg umræða. Þrátt fyrir að við höfum lagt okkur fram um það í umræðu að undirstrika alvöru málsins og mikilvægi þess að stjórnarmeirihlutinn skilji þá alvarlegu stöðu sem upp er komin og leiti þess vegna leiða með okkur til að takast á við hana, er engin merki um það að finna. Við heyrum enga einustu afsökunarbeiðni yfir þeirri stöðu að meiri hlutinn skuli hafa kallað yfir þjóðina fordæmalausan álitshnekki á alþjóðlegum vettvangi og fordæmalausa stjórnmálakrísu hér innan lands. Við heyrum ekkert loforð um kosningar í haust heldur þvert á móti upptalningu á löngum loforðalista um eilífðarmál sem augljóslega eru ekki að fara að leysast í samstarfi þessara tveggja flokka, eins og afnám verðtryggingar. Við höfum ekkert í höndunum eftir þessa umræðu um góðan vilja stjórnarmeirihlutans til að skilja (Forseti hringir.) ákall um kosningar án tafar og að spilin verði stokkuð á nýjan leik. (Forseti hringir.) Það er áhyggjuefni og ég hvet þess vegna stjórnarliða til að styðja þessa tillögu um vantraust.