145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:28]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er útilokað að endurheimta traust í íslensku samfélagi með þessa ríkisstjórn við völd eftir þann alvarlega álitshnekki sem þjóðin má nú líða vegna spillingar og siðferðisbrests ráðherra ríkisstjórnarinnar. Þessi ríkisstjórn er frá fyrsta degi rúin öllu trausti vegna þess að það sjá allir að hér er ekki að verða nein breyting, þetta er sama ríkisstjórnin og sat í gær. Það er líka deginum ljósara að öll brýnustu verkefnin í stjórnmálum dagsins í dag eru betur komin í höndum annarra en hennar. Þjóðin á heimtingu á því að gengið verði til kosninga strax, að hún fái að afhenda umboð sitt þeim stjórnmálaflokkum sem hún treystir. Við eigum að svara því kalli og ganga til kosninga strax. Þess vegna styð ég vantrauststillögu á ríkisstjórnina.