145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þurfti að láta segja mér það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að hæstv. forsætisráðherra hefði fundað með stjórnarandstöðunni í morgun — og það væri ekkert að frétta. Engin dagsetning er komin á kosningarnar. Hvernig stendur á þessu? Eru menn ekki búnir að hafa helgina til að fara yfir hvaða mikilvægu mál það eru sem ríkisstjórnin ætlar að klára og getur sett niður dagsetningar þannig að búið sé að negla það?

Áttar þessi ríkisstjórn sig ekki á því að almenningur og stjórnarandstaðan hefur frekar slæma reynslu af því að treysta þessari ríkisstjórn þegar hún segist ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslur eða kosningar? Það er ekki mjög gott, svo ég leyfi mér að sletta, „track record“, virðulegur forseti, í þeim efnum. Við viljum fá dagsetningu á það hvenær kosningar verða haldnar. Það dugar ekki að bregðast við ástandi sem skapast í samfélaginu með því að segja: Já, við ætlum að kjósa fyrr, en við ætlum bara að fá að klára öll okkar mál í einum rykk áður en það verður gert og sjáum bara til hvernig stjórnarandstaðan hagar sér.

Það kemur ekki til greina. Dagsetningu á þessar kosningar, takk, og svo getum við talað saman um hvaða mál þarf að klára fyrir þær.