145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

túlkun reglna um hagsmunaskráningu þingmanna.

[15:14]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú erum við enn að hefja þingstörf án þess að fyrir liggi af hálfu ríkisstjórnarinnar dagsetning um þær kosningar sem boðaðar hafa verið og lofað hefur verið. Þetta er náttúrlega mjög ankannalegt að við skulum ganga hér til starfa dag eftir dag og það skuli ekki vera upplýst inn á þennan vettvang hvenær standi til að efna loforðið sem almenningi var gefið um kosningar.

Vegna orða hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar hér áðan þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði farið á eigin vegum á kvennaþing Sameinuðu þjóðanna í New York og vildi svara því hér að hann hefði gert það á eigin reikning þá var nú þingmaðurinn skráður á vefsíðu ráðuneytisins sem fulltrúi Alþingis. Það var nú kannski það sem ég var að gera athugasemdir við á sínum tíma, þ.e. hvernig þingið hefði staðið að tilnefningu síns fulltrúa á kvennaþing Sameinuðu þjóðanna, því forseti upplýsti hér (Forseti hringir.) af því tilefni að þingið væri ekki í færum til að senda fulltrúa á það þing, en samt var þingmaðurinn skráður sérstakur fulltrúi þingsins. Forseti mætti þá kannski svara því hvernig því vék við.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna