145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:30]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það kom fram á opnum fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar í síðustu viku að skattrannsóknarstjóri telur að í þeim gögnum sem hann hefur séu um það bil 600 félög í hinum svokölluðu aflandslöndum sem tengjast um það bil 400 Íslendingum. Mér fannst áhugavert að heyra að af þessum 600 félögum tengdum 400 Íslendingum væru það einungis um 30 mál sem væru í sérstakri skoðun og að ákæra kynni að verða gefin út í einhverjum þeirra mála.

Þessar tölulegu upplýsingar eru vísbending um að í þessari umræðu er mikilvægt að velta því fyrir sér af hverju menn hafa leitað með félög sín til hinna svokölluðu aflandslanda. Þar eru ýmsar ástæður að baki. Í einhverjum tilfellum getur verið um einhvers konar skattaskjól að ræða. En í því sambandi er líka rétt að hafa í huga að til dæmis á árunum fyrir bankahrunið var fjármagnstekjuskattur ekki svo ýkja hár hér á Íslandi. Ég er ekki sjálf svo viss um að það hafi endilega verið ástæðan í þessum málum.

Dulið eignarhald, að menn hafi leitað eftir því að fela eignarhald og þar fram eftir götunum — í mörgum tilfellum er um lögmætar og málefnalegar ástæður að ræða. Mér finnst mikilvægt að menn hafi það í huga. Áður en gengið er í róttækar lagabreytingar með tilheyrandi boðum og bönnum, eins og mér heyrist menn hér vera að kalla eftir, (Forseti hringir.) þá held ég að það sé algjört grundvallaratriði að menn greini ástæður þess að menn hafa stofnað félög í aflandslöndum.