145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Miðað við það sem hv. þingmaður segir, að hún sé ánægð með áætlunina eins og hún er og að innan stjórnarliðsins verði ekki barist fyrir því að fá aukið fé í framkvæmdir, þá stöndum við frammi fyrir því á Vestfjörðum að framkvæmdir um Gufudalssveit, ef þær verða samþykktar, eru með 2,4 milljarða í samgönguáætlun 2017 og 2018 en það er óvíst, eins og stendur í áætluninni, hvað þetta mun kosta. Þá er það 2019 og síðar sem peningur kemur inn til að klára það. Það tel ég ekki nægjanlegt.

Hvað varðar Dynjandisheiði, og hv. þingmaður talar um að það sé ásættanlegt, er áætlað að framkvæmdir þar kosti 4,5 milljarða en einungis 850 milljónum er varið í þær árin 2017 og 2018. Þá vantar að minnsta kosti um 3,8 milljarða til að klára verkið.

Þá stendur það þannig að nokkur ár verða í að framkvæmdir við Dynjandisheiði klárast, ef áætlun um Dýrafjarðargöng gengur þannig eftir að þau verða opnuð eigi síðar en á haustdögum 2019, ef gefið yrði í og veittir meira en 3,5 milljarðar það ár svo að sú framkvæmd kláraðist.

Ég segi fyrir mitt leyti, af því að ég hef miklu meiri metnað fyrir því hvað þarf að gera og hef talað fyrir því sem þarf að gera á Vestfjörðum en það hefur sannarlega setið eftir af ýmsum ástæðum, m.a. hæstaréttardómum og öðru sem ég hef gert að umtalsefni, að ég mundi ekki vera ánægður með það og ég mundi sem stjórnarliði berjast fyrir því að aukið yrði í samgönguáætlun. Það er sannarlega þörf á því, eins og ég hef bent á. Það sem er gert á Vestfjörðum er að hefja verk en þau eru ófjármögnuð.