145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 1. þm. Norðaust., um leið og ég býð hann formlega velkominn til þings að sjálfsögðu, fyrir skörulega ræðu og að fara yfir það svæði sem hann kemur frá og fór ágætlega í gegnum.

Það er sannarlega þannig að ég get tekið undir margt sem hann sagði í ræðu sinni, til dæmis það sem snýr að framkvæmdum við Dettifossveg. Fyrri hlutinn var gerður í tíð síðustu ríkisstjórnar, alveg frá þjóðvegi og niður að fossi, og með glæsibrag. Seinni hlutinn átti að vera inni á áætlun með 2.400 millj. kr. til að klára þá 30 kílómetra sem eftir voru, en síðan gerðist það í tíð fyrrverandi innanríkisráðherra, hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að peningar sem þar voru inni voru teknir úr Dettifossvegi og færðir yfir í viðhald malarvega með þeim orðum að fjárveiting kæmi inn á næstu fjárlögum þar á eftir í viðhald malarvega sem yrði þá skilað inn til Dettifossvegar. Nú var það ekki gert. Það gekk ekki eftir. Þess vegna erum við í smáplástrum á Dettifossvegi núna, eins og hv. þingmaður ræddi um, á um 3 kílómetrum, ef ég man rétt, sem lýkur þá væntanlega á þessu ári. En síðan verður bara ekkert þar árin 2017 og 2018. Ég spyr þingmann hvort hann sé ánægður með slíka áætlun.

Hitt atriðið er framkvæmdir við Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljót. Í langtímaáætluninni var gert ráð fyrir að Jökulsá á Fjöllum fengi 950 milljónir til framkvæmda á því framkvæmdatímabili sem þessi stutta áætlun fjallar um, en það er dottið út. Sama má segja um brúna á Skjálfandafljóti. Þar áttu að vera 430 milljónir á öðru tímabili, en það er líka dottið út. Ég vek athygli hv. þingmanns á því (Forseti hringir.) að Jökulsá á Fjöllum er þarna inni og Skjálfandafljót með þrisvar sinnum 50 (Forseti hringir.) milljónir en ekki er gert ráð fyrir neinu þar á eftir. Þá er spurningin þessi: Styður hv. 1. þm. Norðaust. (Forseti hringir.) slíka áætlun sem gerir ekki ráð fyrir meiru en hér er talað um?