145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Spurning mín er einföld því að hér er um að ræða sögulega rýra samgönguáætlun. Hún er þó kannski á pari við þá sem lögð var fram í fyrra og náði ekki fram að ganga. Hún kemur seint eins og hæstv. ráðherra hefur komið að í ræðu sinni.

Þegar hv. umhverfis- og samgöngunefnd var með tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun til meðferðar fyrir réttu ári fór meiri hlutinn í þá vegferð að leggja til töluverðar breytingar á henni. Þær eru listaðar upp í sérstöku skjali um breytingartillögur og líka í sérstakri samantekt aftast í nefndaráliti hv. meiri hluta í júní 2015.

Af þessum sökum og ekki síst vegna þess að hér kemur fram, hjá hv. 1. þm. Norðaust. Hjálmari Boga Hafliðasyni, að hann sjái ekki fyrir sér að samþykkja tillöguna eins og hún er lögð fram heldur vilji sjá á henni umtalsverðar breytingar, þá vil ég spyrja hv. þingmann, sem einnig er þingmaður Framsóknarflokksins og í sama kjördæmi, Norðausturkjördæmi, sem er kjördæmi hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar, hvort hún sé sömu skoðunar, þ.e. að bæta þurfi í samgönguáætlun eins og hún er lögð fram af hæstv. ráðherra og jafnvel þá heilum milljarði eins og gert var fyrir ári.