145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get sennilega ekki í stuttu andsvari tekið á öllu sem hv. þingmaður nefndi en ég mun vonandi gera því betri skil í lokaræðunni. Í fyrsta lagi út af því umræðuefni sem hv. þingmaður kemur hér með — það er afar mikilvægt, ég vil byrja á að segja það — þá er ég sjálf þeirrar skoðunar, ég ætla bara að deila því með þingheimi, að við getum gert miklu betur í því að breyta umferðarmenningu á höfuðborgarsvæðinu. Ég hygg hins vegar að það muni taka ákveðinn tíma.

Ég veit að hv. þingmaður hefði viljað sjá stærri skref í þessari áætlun. Ég vil samt segja það hér að þarna er þó verið að leggja þá áherslu á málið að það er klárlega val við annað, þ.e. þá getum við líka alveg eins sagt að bílaumferðin sé val við þetta. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur, þegar við horfum til lengri tíma, að vera ekki að stilla þessum þáttum hvorum á móti öðrum, ég held að hv. þingmaður hafi ekki verið að gera það. Einhverjir munu ferðast um á bílum, það þarf að gera ráð fyrir því. Aðrir vilja hjóla, það þarf að gera ráð fyrir því.

Ég held að við eigum að stíga miklu stærri skref þegar kemur að öðrum orkugjöfum. Þessar ívilnanir gagnvart rafmagnsbílum hafa áhrif, en það hefur líka áhrif á fjármögnun vegakerfisins. Við erum alltaf að fara eftir þessum eldsneytisgjöldum; þótt þeir peningar komi síðan ekki allir til baka inn í vegakerfið þá er það hugsunin. Ég held að sú breytta mynd sem við sjáum, og ég held að við ættum að horfa dálítið fram í tímann í því, kalli líka á það að við fjármögnum vegakerfið allt upp á nýtt. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég held að við getum stigið miklu stærri skref. Það væri svolítið gaman ef við gætum sameinast um stór skref lengra inn í framtíðina.

Af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um léttlestaþingsályktunartillöguna þá er að sjálfsögðu verið að vinna að henni í innanríkisráðuneytinu í samstarfi við sveitarfélögin. Það er hluti (Forseti hringir.) af því — nú kemst ég ekki lengra með þetta — sem þarf til þess að við getum haldið áfram með þetta mál. Þess vegna er ekki gengið lengra en að nefna það. Öll ákvarðanataka er eftir. Allur grundvöllurinn er eftir. Við þurfum að fá það fram svo að við getum rætt þetta.