145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[19:19]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um rannsóknarnefndir. Frumvarpið flyt ég fyrir hönd forsætisnefndar Alþingis. Með því eru lagðar til breytingar á lögum um rannsóknarnefndir. Tilefnið er sú reynsla sem hefur fengist af framkvæmd laganna og skipan þeirra tveggja nefnda sem hafa starfað á grundvelli þeirra. Eins og fram hefur komið var það sérstaklega gagnrýnt hversu langan tíma rannsóknirnar tóku og sá kostnaður sem af þeim hlaust.

Á sumarfundi forsætisnefndar í ágúst 2013 var fjallað um reynsluna af skipun rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna og rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð o.fl. Það varð niðurstaða forsætisnefndar að skrifstofa Alþingis tæki saman í greinargerð upplýsingar um reynsluna af framkvæmd gildandi laga um rannsóknarnefndir. Þeirri vinnu lauk í lok árs 2014. Í greinargerð skrifstofunnar í janúar 2015 eru dregin saman þau atriði sem telja verður að máli skipti við undirbúning og skipun rannsóknarnefnda samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir. Er þar sérstaklega horft til þess hvernig rannsóknarnefndunum var komið á fót og aðkomu forseta Alþingis og skrifstofu Alþingis að þeim undirbúningi og gerðar tillögur til úrbóta.

Sú tiltölulega stutta reynsla sem er af framkvæmd laga um rannsóknarnefndir og sú gagnrýni sem hefur komið fram um að störf þeirra taki of langan tíma, séu of dýrar og skili litlum árangri er að mörgu leyti í samræmi við gagnrýni sem hefur komið fram á störf rannsóknarnefnda í Danmörku og framkvæmd þarlendra laga um rannsóknarnefndir. Í Danmörku hefur verið gagnrýnt að rannsóknarnefndir séu kostnaðarsamar, störf þeirra taki langan tíma og þær séu þungar í vöfum. Er gerð grein fyrir þeirri gagnrýni og umræðu um önnur úrræði í greinargerð lagaskrifstofu Alþingis. Frá því að greinargerðin lá fyrir í janúar 2015 hafa málefni rannsóknarnefnda og önnur möguleg rannsóknarúrræði verið til frekari umræðu í Danmörku og þá hvernig megi á sem hagkvæmastan hátt mæta þörfum þingsins um upplýsingar og gögn um málefni sem snerta störf ráðherra eða stjórnsýslu á hans sviði. Beinar tillögur stjórnvalda þar í landi hafa þó ekki enn komið fram til úrbóta.

Markmið frumvarpsins sem hér er verið að ræða er að skapa skýrari grundvöll fyrir skipun rannsóknarnefnda þar sem lögð er áhersla á markvissari aðkomu forseta Alþingis að faglegum undirbúningi skipunarinnar. Með þeim hætti er stefnt að því að fyrir Alþingi liggi sem bestar upplýsingar áður en ákvörðun er tekin um skipun rannsóknarnefndar. Jafnframt verði skýrlega greint á milli ákvörðunar Alþingis um skipun rannsóknarnefndar og þeirrar stjórnsýslu sem fram fer í þágu Alþingis, auk þess sem sett verði skýrari ákvæði um verkefni rannsóknarnefnda og um ábyrgð á fjárreiðum þeirra.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi lögum nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir, þar sem brugðist er við ábendingum og tillögum sem fram hafa komið um skipun og störf rannsóknarnefnda. Er þar að meginstefnu til byggt á greinargerð lagaskrifstofu Alþingis.

Í fyrsta lagi miða breytingarnar að því að styrkja frekar undirbúning við skipun rannsóknarnefnda og framkvæmd ályktana Alþingis. Er lagt til að við undirbúning tillögu til þingsályktunar um skipun rannsóknarnefndar verði aflað umsagnar forseta Alþingis um hana, en mikilvægt er að nýta þá þekkingu og reynslu sem skrifstofa þingsins hefur af starfsemi slíkra nefnda. Að auki verði forseta Alþingis heimilt við undirbúning umsagnarinnar að leita eftir umsögn ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis um málið, en þessir eftirlitsaðilar á vegum Alþingis búa yfir mikilsverðri þekkingu á störfum stjórnvalda. Með slíkum undirbúningi gefst betur færi á að leggja mat á tilefni rannsóknar, hvort um sé að ræða mikilvægt mál sem varðar almenning, mögulegt umfang og kostnað rannsóknar, hvort önnur úrræði séu tiltæk og þær kröfur sem rétt er að gera til nefndarmanna og kveða nánar á um réttarstöðu þeirra sem taka sæti í rannsóknarnefnd.

Líta má á slíka málsmeðferð sem eins konar forathugun á því hvort skipa eigi rannsóknarnefnd og hvert geti verið verkefni slíkrar nefndar. Til að tryggja að slík athugun fari fram er forseti Alþingis þinginu til ráðgjafar. Það er síðan þingið sjálft sem ákveður hvort skipuð verði rannsóknarnefnd. Með þessum breytingum er leitast við að skýra betur hlutverk forseta Alþingis, en það verður síðan í hans verkahring að fylgja eftir ályktun Alþingis með því að skipa nefndarmenn og útvega nefndinni aðstöðu og búnað.

Í öðru lagi er leitast við að skýra nánar með hvaða hætti rannsóknarnefnd skuli fjalla um ábyrgð einstaklinga eða lögaðila. Er við það miðað að fela megi rannsóknarnefnd að gefa álit á því hvort til staðar séu lögfræðileg atriði sem geta varpað ljósi á hvort tilefni sé til þess að þar til bær stjórnvöld kanni grundvöll ábyrgðar einstaklinga eða lögaðila. Lagt er til að fram komi með skýrum hætti að rannsóknarnefndin fjalli ekki um ábyrgð ráðherra samkvæmt lögum nr. 4/1963, um ráðherraábyrgð, en orðalag 7. mgr. 5. gr. laga um rannsóknarnefndir gefur slíkt ekki skýrlega til kynna. Til að fyrirbyggja mögulegan misskilning er gert ráð fyrir því að rannsóknarnefnd geti þó vakið athygli nefndar þeirrar sem fer með eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu, sem er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, á málsatvikum sem kunna að gefa Alþingi tilefni til að kanna grundvöll ábyrgðar ráðherra. Af lokamálsgrein 8. töluliðar 1. mgr. 13. gr. laga um þingsköp Alþingis leiðir að það er í verkahring stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, á grundvelli þeirra málavaxta sem rannsókn hefur leitt í ljós, að gera tillögur um frekari aðgerðir þingsins. Lýsing rannsóknarnefndar á tilteknum málavöxtum, þar með talið störfum ráðherra, getur þannig leitt til þess að Alþingi láti á grundvelli niðurstöðu rannsóknarnefndar kanna sérstaklega grundvöll málshöfðunar á hendur ráðherra, samanber 14. gr. stjórnarskrárinnar. Slík könnun færi þá fram á vegum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Í þriðja lagi er lagt til að kveðið verði skýrar á um skyldur rannsóknarnefndar til að veita forseta Alþingis upplýsingar um framgang og útgjöld rannsóknarnefndar. Jafnframt því verði kveðið skýrar á um fjármál rannsóknarnefnda, þar með talið reikningslegt uppgjör á störfum þeirra og um ábyrgð á þeim.

Í fjórða lagi eru áréttuð almenn sjónarmið um meðalhóf við beitingu rannsóknarheimilda rannsóknarnefndar.

Í fimmta lagi er lagt til að kveðið verði skýrar á um aðgang að gögnum rannsóknarnefndar í þeim tilfellum þegar rannsóknarnefnd hefur tilkynnt ákæruvaldi um grun um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað þar til ákæruvald hefur lagt mat á slíkt mál og ákveðið hvort af saksókn verði.

Í sjötta lagi eru lagðar til breytingar sem lúta að orðalagi og samræmi í texta laganna.

Loks er í sjöunda lagi lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kemur fram að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skuli þegar lög þessi hafa verið samþykkt fjalla um ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012, um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., í því skyni að tryggja að afmörkun og umfang rannsóknarinnar verði í samræmi við ákvæði laga þessara.

Herra forseti. Ég tel afar mikilvægt að þessi athugun nefndarinnar fari fram til að tryggja að undirbúningur rannsóknarinnar fari fram í samræmi við ákvæði 1. gr. frumvarpsins.

Ég legg til, hæstv. forseti, að mál þetta gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að lokinni þessari umræðu.