145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[19:36]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að rekja þetta aðeins sögulega. Sumarið 2013, þegar nýr meiri hluti varð hér til, var eitt af því sem ég beitti mér fyrir sem þingforseti að við reyndum að átta okkur á því hvar við værum stödd varðandi rannsóknarnefndirnar. Umfang rannsóknanna virtist verða meira en við höfðum áformað sem birtist okkur meðal annars í því að þetta var dýrt og tók miklu lengri tíma en við hugðum.

Ég taldi mjög mikilvægt að við reyndum að læra af reynslunni og það höfum við reynt að gera. Danir, frændur okkar, hafa lent í svipuðum erfiðleikum. Við sendum fulltrúa til þeirra til að reyna að læra með hvaða hætti þeir tækju á slíkum málum, læra af þeirra reynslu líka. Þegar þar var komið sögu varð það niðurstaða okkar í forsætisnefnd að einboðið væri að bíða eftir nýju frumvarpi sem vonandi yrði að lögum sem ég vona svo sannarlega að eigi við um þetta mál. Farið yrði með þá samþykkt, sem Alþingi hafði áður gert og hv. þingmaður vísaði til, í gegnum það nýja nálarauga. Við skoðuðum með öðrum orðum þessa samþykkt í ljósi þessarar lagasetningar og ef það leiddi til þess að gera þyrfti breytingar vegna þessara nýju laga, gera meiri kröfur um afmörkun viðfangsefnis o.s.frv., yrði það gert enda hefði verið sérkennilegt að við værum að hefja endurskoðun á lögunum um rannsóknarnefndir en hefðum síðan hleypt af stað vinnu við rannsóknarnefndir á grundvelli gömlu laganna. Hér er ekki verið að koma í veg fyrir það með neinum hætti að farið verði í þá rannsókn sem þarna er verið að stofna til. Það er eingöngu verið að segja að það sé eðlilegast að hafa þetta mál í þeim ramma sem verið er að búa til þannig að þegar af þessari rannsókn verður (Forseti hringir.) verði hún afmörkuð með sama hætti og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.