145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér. Okkur öllum hlýtur að þykja það mjög áríðandi að við fáum að vita hvaða mál það eru sem ríkisstjórnin vill leggja áherslu á að klárist á þinginu áður en kosið verður í haust, segja þeir, þó að krafan sé vissulega sú, eins og vitað er, að kosið verði strax.

Hvenær verður kjördagur? Hvaða mál á að klára?

Það er ekki hægt að sitja hér í nefndum eða á fundum og láta eins og ekkert hafi í skorist. Forseti þingsins sagði í útvarpinu í fyrradag, held ég að það hafi verið, að enginn vafi væri á því að kosið yrði í haust. Við hljótum að gera kröfu til þess að fá að vita hvaða dag það verður, ekki bara við heldur öll þjóðin, vegna þess að kosningar (Forseti hringir.) eru ekki fyrir okkur, virðulegi forseti, kosningar eru fyrir þjóðina þannig að hún geti valið sér nýtt þing því að hún vantreystir þessu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)