145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er 20. apríl í dag og á morgun er sumardagurinn fyrsti um allt land eins og framsóknarmaðurinn sagði. Síðan taka við nefndadagar í byrjun næstu viku fram á fimmtudag þannig að það verður kominn 28. apríl þegar næst verður fundað í þessum sal að þessum degi frátöldum. Apríl er með öðrum orðum að verða búinn. Þetta er ekkert óskaplega flókið.

Miðað við það að hæstv. fjármálaráðherra ætli ekki að verða ómerkingur orða sinna þá talaði hann sem betur fer og aldrei þessu vant mjög skýra íslensku hér í stiganum. Hann sagði: Þetta kjörtímabil verður stytt um eitt löggjafarþing.

Með öðrum orðum: 146. löggjafarþing verður ekki sett 13. september eins og annars hefði orðið. Það er það eina sem hægt er að lesa út úr orðum hæstv. fjármálaráðherra og í raun hefur hæstv. forsætisráðherra staðfest hið sama.

Þá vitum við það. Við höfum þetta löggjafarþing. Það hefur fram í byrjun júní og svo kannski aftur síðsumars og það ætti ekki að vera mjög flókið að fylla inn í þann tíma eða fá botn í það hvað er hægt að gera á þessum afmarkaða tíma sem loforð (Forseti hringir.) stjórnarflokkanna sjálfra hljóða upp á.

Það getur ekki verið þannig, herra forseti, (Forseti hringir.) að ríkisstjórnarflokkarnir sem gáfu þjóð og þingi þetta loforð fyrir nokkrum dögum geti breytt því í sérstakt vopn hvort þeir standi við það eða ekki. (Forseti hringir.) Vopn á stjórnarandstöðuna.

Þetta gengur ekki upp í mannlegum samskiptum og það er mál að linni, herra forseti. (Forseti hringir.) Hæstv. forsætisráðherra verður að fara að koma með einhver svör í þessum efnum (Forseti hringir.) eða játa sig sigraðan og viðurkenna að það hafi verið mistök að reyna að hanga áfram á völdunum.