145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

kjördagur og áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[15:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar fundur hafði verið haldinn með forustu stjórnarandstöðunnar í Stjórnarráðinu í síðustu viku vildi hæstv. forsætisráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson láta á sér skiljast að orðið hefðu kaflaskil vegna þess að hann ætlaði að opna kaflann um aukið samtal við stjórnarandstöðuna, aukna sátt um framvindu mála og aukið samtal. Ég velti því upp hér hvort það hafi verið án innstæðu, þ.e. hvort hæstv. ráðherra hafi ekki haft innstæðu fyrir þeim áformum vegna þess að frá þeim tímapunkti erum við algjörlega í sama veruleika og við vorum í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þ.e. það er ekkert samtal í gangi og við fáum upplýsingar um það hvað ríkisstjórnarflokkarnir (Forseti hringir.) eru að hugsa í stýrðum lekum út úr Stjórnarráðinu. Forseti þingsins þarf að standa með Alþingi í því að halda sóma þess uppi og kalla þessi svör fram.