145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vekja athygli á því, af því að nú hef ég heyrt báða hv. formenn stjórnarflokkanna færast mjög undan þegar þeir eru spurðir um það hvort þeir séu reiðubúnir til þess að Alþingi láti fara fram rannsókn á aflandsfélögum í eigu Íslendinga, að fyrir Alþingi liggur tillaga frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um að Alþingi skipi fimm manna nefnd sérfróðra aðila með sérþekkingu á alþjóðaviðskiptum og fjármálakerfinu og skattamálum.

Ég fæ ekki betur heyrt í svari hæstv. forsætisráðherra hér áðan sem og í svörum hæstv. fjármálaráðherra við ítrekuðum fyrirspurnum mínum um þetta mál að þeir færist undan, að þeir vilji ekki að Alþingi rannsaki þetta risavaxna mál sem aðrar vestrænar þjóðir eru í óða önn að taka upp og láta rannsaka en ekki forsvarsmenn íslensku ríkisstjórnarinnar.

Ég vil segja það undir þessum lið, fundarstjórn forseta, að mér finnst það ábyrgðarhluti ef forseti Alþingis gengur ekki í það að setja þetta mál á dagskrá þannig að hægt sé að taka afstöðu til þess. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Hér hefur verið rætt um að þingið eigi bara að halda áfram (Forseti hringir.) eins og eðlilegt er. Setjum þá mikilvæg mál á dagskrá sem snúast um málefni dagsins og sýnum að Alþingi sé reiðubúið að taka skýra afstöðu í þessu mikilvæga máli.