145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta mál er ekki búið. Það er ekki þannig að þó að það verði til ný ríkisstjórn og einhverjir skipti um sæti og það sé komin ný forusta á ríkisstjórnina sé allt þetta mál þar með fyrir vind, þar með geti fólk bara sagt: Heyrðu, höldum bara áfram að vinna vinnuna okkar hérna, vegna þess að hér urðu stórkostleg alvarleg pólitísk tíðindi, tíðindi á heimsmælikvarða. Hér hefur komið fram frá forustu beggja ríkisstjórnarflokkanna að þeir telja að ekki þurfi að grípa til sérstakra ráðstafana af því tilefni, þeir telja svo ekki vera. Í ljósi alvarleika málsins geri ég um það skýra kröfu við forseta Alþingis að tillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um sérstaka rannsóknarnefnd sem hæfir tilefninu verði sett á dagskrá þegar þing kemur saman á fimmtudaginn í næstu viku.