145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Þarf einhver að velkjast í vafa um að það sé vilji okkar allra að þessi mál komi öll upp á yfirborðið og það sem fyrst? Í hvaða orðum forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar liggur það? Þetta er bara ómerkilegur spuni sem á sér stað, óheiðarlegur málflutningur sem er allt of mikið stundaður hér í þingsal af hv. þingmönnum og er grunnurinn að því að virðing þingsins er ekki meiri en raun ber vitni.

Hér koma menn og kalla eftir því að þeir vilji vita hverjir kröfuhafarnir eru, vilji fá þann lista. Það sama fólk felldi slíka tillögu á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í: Ekki ég.) Felldi slíka tillögu. Hún fékk ekki fram að ganga, tillaga hv. þm. Lilju Mósesdóttur, var það? En nú er kallað eftir þessu. (Gripið fram í.) Það skín svo í gegn, virðulegur forseti, (Gripið fram í.) til hvers þessi málflutningur er, að reyna að villa og skapa ólgu. Auðvitað verður allt gert af hálfu hins opinbera, það hefur ítrekað komið fram í orðum hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann hefur farið yfir það hvernig við erum að taka þátt á alþjóðlegum vettvangi (Forseti hringir.) í því að með öðrum ríkjum að reyna að komast til botns í þessum málum, að reyna að uppræta þessi svokölluðu skattaskjól. Auðvitað verður ekkert slegið af í þeim efnum. Það stendur ekki til.