145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[18:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þá verð ég að biðja hæstv. innanríkisráðherra að segja mér hvaða Norðurlönd það eru sem hafa tekið þetta upp í sína löggjöf. Það vill svo til að ég, eins og margir þingmenn sem hér sitja, naut þeirra forréttinda að starfa í vinnuhópnum sem vann drögin að frumvarpinu. Þar vorum við upplýst um það, eða ég skildi það þannig, að hvergi væri búið að taka þetta upp í nein lög, en í einu landi væri það í umræðu. Að því er ég tel, ég las það ákvæði bara á enskri tungu, gekk það að ýmsu leyti ekki eins langt og þessi heimild gæti gert.

Þess vegna segi ég: Ég vil fá skýringar á því hvers vegna ríkisstjórnin breytti nokkrum veigamiklum atriðum. Það þýðir ekki að ég hverfi frá stuðningi mínum við málið, en ég óska þess að allsherjarnefnd taki þetta mjög rækilega fyrir. Hæstv. ráðherra verður að segja mér í hvaða landi þetta er vegna þess að við vorum ekki upplýst um það og höfðum þó aðgang að bestu sérfræðingum.

Í öðru lagi: Maður verður að geta horfst í augu við sjálfan sig. Þetta særir réttlætiskennd mína af mörgum ástæðum. Þess vegna verð ég að spyrja hæstv. ráðherra aftur: Er hún fullviss um að þetta stangist ekki á við réttinn (Forseti hringir.) sem einstaklingurinn hefur, og er varinn af mannréttindasáttmálanum, til þess að eiga fjölskyldu og heimili?