145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

Panama-skjölin og afleiðingar þeirra.

[10:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er planið, segir hæstv. fjármálaráðherra. En það er einmitt meinið, það er ekkert plan. Stjórnarflokkarnir hafa lagt fram lista yfir mál sem þeir hafa ekki einu sinni enn þá skrifað, (FSigurj: Það er bara ekki rétt.) mál sem þeir vita að hvaða ríkisstjórn sem er getur afgreitt. Ekkert á þeim málalista kemur í veg fyrir að við kjósum nú.

Ríkisstjórnin er rúin trausti. Ef hún telur að einhver vilji sé til þess í landinu að hún sé hér við völd og afgreiði þau mál á hún að mæta kjósendum. Þá á formaður Sjálfstæðisflokksins að ræða málin við kjósendur og sækja traust og umboð til þess að afgreiða þennan málalista vegna þess að hann hefur hvorki traust né umboð til þess að afgreiða þennan málalista eftir það sem á undan er gengið.