145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

[11:18]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fagna því að til umræðu verði á morgun mál um aflandsfélög, sem er auðvitað mál málanna í íslenskri pólitík.

Mig langar til að beina fyrirspurn til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vegna þess að ég er hugsi yfir stöðunni hjá okkur í þinginu. Ég tek þeirri ábyrgð mjög alvarlega að vera þingmaður og eins og við vitum hafa upplýsingarnar úr Panama-skjölunum valdið algjörri pólitískri upplausn. Það siðrof sem kom í ljós og afhjúpaðist í birtingu skjalanna og eru að birtast núna í hverri viku er slíkt að traust og trú á íslenskt stjórnmálalíf er algjörlega hrunið, hafi það verið eitthvað til að hrópa húrra fyrir.

Ein af helstu röksemdafærslum fyrir því að halda ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks áfram var að hér yrði að klára mjög mikilvæg mál, að horfa yrði til mála sem vörðuðu sérstaklega þjóðarhag. Ég vil taka undir það að hlutverk okkar á Alþingi er ekki síst einmitt þjóðarhagur og þjóðarhagsmunir miklu frekar en til dæmis hagsmunir einhverra stjórnmálaflokka sem við tilheyrum.

Nú hefur sést rúmlega 70 mála listi frá ríkisstjórninni, en enn þá er dálítið óljóst hvaða mál eru svo mikilvæg að við þurfum að hafa ríkisstjórn sem virðist því miður ekki njóta mikils trausts meðal þjóðarinnar. Hvaða mál eru það sem hæstv. fjármálaráðherra telur að séu svo mikilvæg að þau kalli á þessa ríkisstjórn og að það séu engir aðrir en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem geti leitt þau til lykta?