145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[12:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Sumir mega taka undir og tala fyrir þjóðina, aðrir mega það ekki. Stjórnarandstöðunni er það ekki heimilt samkvæmt sumum stjórnarþingmönnum hér inni og var flutt um það eldræða áðan af hv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins að hér væri ekki hægt að tala fyrir hönd þjóðarinnar. Hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, boðaði til kosninga, hann lofaði þjóðinni kosningum, hann lofaði ekki okkur stjórnarandstöðunni kosningum, hann lofaði þjóðinni. Hann ætlaði að stytta þingið um eitt kjörtímabil. Það eru praktísk mál, eitt þing. Það þarf að undirbúa þing, það þarf að undirbúa fólk erlendis, það er ýmislegt sem þarf að gera ef ráðherrann ætlar að standa við það loforð. En hann hefur ekki haft manndóm í sér til að segja að hann ætli að gera það og hefur ekki sagt okkur hvenær eigi að kjósa. Það skiptir máli. Annan þriðjudag í september á þing að hefjast samkvæmt þingsköpum. Þingsköpum hefur ekki verið breytt. Það hefur ekki verið boðað að breyta eigi þeim. (Forseti hringir.) Ráðherra þarf þá líka að segja okkur að hann hyggist gera það, (Forseti hringir.) boða til breytinga á þingsköpum til að hægt sé að hefja þing seinna, til að hægt sé að leggja fram fjárlagafrumvarp seinna og mæla fyrir því o.s.frv. (Forseti hringir.) Það hefur ekki verið gert, hvað þá hugað að fólki sem er erlendis og þarf langan fyrirvara.