145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[15:27]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni, Brynhildi Pétursdóttur, fyrir jákvæða ræðu hennar og hrós til velferðarnefndar. Ég tek undir það að velferðarnefnd vann vel að þessu máli. Það má líka segja um þá nefnd að þar er almennt mjög gaman og gott að vinna. Þótt við séum ekki alltaf sammála þá vinnum við yfirleitt með það að leiðarljósi að reyna að finna sameiginlega niðurstöðu ef mögulegt er. Það er jákvætt og gott af því við erum jú fulltrúar fyrir ólíka kjósendur og það er best þegar hægt er að finna leið sem allir geta sætt sig við.

Nú að geðheilbrigðismálum. Ég kem aðallega hér upp til að ræða um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Nú er það svo að hún kemur út áður en við skilum nefndarálitinu og það er mjög jákvætt. Hver og einn nefndarmaður kynnti sér efni hennar, en þá kemur einmitt upp þessi vandi að skýrslurnar fara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þá þarf velferðarnefnd að vega og meta: Eigum við að kalla aftur til Ríkisendurskoðun? Eigum við að kalla aftur til ráðuneytið ef það hefur áður mætt og komið? Þessi verkaskipting er umhugsunarefni af því að það er nóg að gera, okkur berst mikið efni inn í nefndirnar sem við þurfum að kynna okkur og vinna með. Stundum er hætta á að þessar skýrslur fari fyrir ofan garð og neðan í þeim nefndum sem fjalla um viðkomandi málefnasvið. Ég skal játa það að ég var ekki búin að sjá hvernig umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrsluna var háttað. (Forseti hringir.) Hvert er álit þingmannsins á þessu fyrirkomulagi?