145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:40]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með þeim þm. hv. Össuri Skarphéðinssyni og Svandísi Svavarsdóttur að það er í hæsta máta óeðlilegt að sjá hér ekki forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar sem hafa verið með hártogunum og jafnvel hálfsannleika að bera í bætifláka fyrir aflandsfélög og skattaskjól. Auðvitað eiga þeir að vera viðstaddir þessa umræðu. Það er eiginlega til skammar að þeir skuli ekki sjást hér.

En ég vildi aðeins inna hv. þingmann eftir einu atriði sem ég rek augun í hér í greinargerðinni með þessari annars ágætu tillögu. Þar segir í annarri málsgrein á bls. 2 að nýta beri upplýsingar og vitneskju, sem rannsókn á umfangi og starfsemi aflandsfélaga leiði í ljós, til að girða fyrir misnotkun á slíkum félögum.

Ég hnaut aðeins um þetta vegna þess að ég er reyndar komin á þá skoðun, og hún hefur mótast bara á örfáum dögum eftir því sem meira hefur komið í ljós, að notkun aflandsfélaga sé alltaf annarleg.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvort að svo kunni að vera að hún sé sammála mér um þetta. Orðalagið hér er varfærið og það er skiljanlegt. Menn reyna jafnan að vera varfærnir og kurteisir í greinargerðum með þingsályktunartillögum. En í ljósi þess sem hefur verið að koma í ljós alveg fram á þessa stundu: Hver er afstaða hv. þingmanns til aflandsfélaga sem fyrirbæris? Eru þau ekki einfaldlega skálkaskjól til þess að viðhafa leynd og undanskot? Kann að vera að það sé í raun og veru aldrei, þó að það kunni að vera löglegt að nýta þau, siðferðilega verjandi?