145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:02]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan í störfum þingsins hef ég verið að hlusta eftir því hvernig sérstaklega Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn tala, og reyndar hv. forseti Íslands líka, um stöðuga óvissutíma. Það er vel þekkt bragð. Donald Trump gerir það líka.

Eina óvissan sem ég upplifi núna er hvernig stjórnarflokkarnir og ríkisstjórnin ætla að taka á þessu aflandsmáli. Ég sit hér í salnum af því að mig langaði raunverulega til að heyra í hæstv. fjármálaráðherra og stjórnarþingmönnum, hvað þeir hafa um málið að segja. Er þetta bara allt í lagi? Hvað ætla menn að gera?

Hér erum við að ræða mjög góða tillögu og menn hafa ekki einu sinni fyrir því að setja sig á mælendaskrá. Enn og aftur er stjórnarandstaðan að tala hér við sjálfa sig. Það er ekki boðlegt.

Ég tek undir þá kröfu að hæstv. fjármálaráðherra komi og útskýri fyrir þingheimi hvað hann ætlar sér í þessu máli. Við erum (Forseti hringir.) ekki að ræða hér eitthvert léttvægt mál.