145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er skammarlegt og ófyrirleitið af hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að koma hér upp og þremur sinnum í sinni ræðu veitast að hæstv. forsætisráðherra sem hér hefur einungis samkvæmt þingsköpum gefið mönnum heimildir til þess að flytja mál sitt …(Gripið fram í: Forseta.) forseta, gefið mönnum heimild til þess að flytja mál sitt og óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra komi hingað til þessarar umræðu. Herra trúr, er það ekki á valdsviði hæstv. forseta að hlusta á slíkar umræður og gefa mönnum orðið? Svo kemur hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem ekki hefur kjark til að leggja fram sínar málefnalegu skoðanir í þessu máli, sem ekki þorir að setja sig á mælendaskrá, og kvartar undan því að hæstv. forseti leyfi öðrum þingmönnum að tjá sig um það sem þingsköp heimila þeim að gera. Ég legg til að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skrái sig eigi síðar en nú þegar á mælendaskrá (Forseti hringir.) og taki að því loknu upp símann og óski eftir því að hans eigin leiðtogi komi hingað til þess að leyfa okkur að tala við sig.