145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þetta mál og byrja á því að þakka flutningsmönnum fyrir að leggja það fram. Það er full ástæða til þess að fram fari rannsókn á fjölda og starfsemi félaga sem eru í skattaskjólum. Við vitum það eitt um þá stöðu sem upp er komin að allar þær fréttir sem borist hafa og hafa skekið heimsbyggðina á undanförnum vikum stafa frá einni lögmannsstofu, Mossack Fonseca í Panama. Hún er ekki eina lögmannsstofan í Panama og Panama er ekki eina ríkið sem hefur gefið sig út fyrir lögfræðilega aðstoð við að koma peningum í skattaskjól. Þar fyrir utan skipta skattaskjól tugum.

Við vitum líka, miðað við það sem flogið hefur fyrir í hinum alþjóðlega bankaheimi, að sú leið Mossack Fonseca sem Landsbankinn bauð upp á fyrir hrun þótti ódýr og einföld leið til að koma peningum í skattaskjól, var eins konar bónuslausn fyrir þá sem vildu koma peningum í skjól. Aðrar dýrari og flóknari leiðir voru í boði annars staðar. Við vitum ekkert um þær. Þess vegna er góður sá andi sem birtist í tillögu þeirri sem hér er til umræðu, að fara alfarið yfir umfangið um tengsl við íslenska aðila.

Ég vil síðan sérstaklega gera athugasemd við þau orð sem hæstv. fjármálaráðherra hefur látið fjalla um þessa tillögu og þær rangtúlkanir sem hann hefur beitt á stöðu mála. Ég verð satt að segja að taka fram hér að það er auðvitað algjörlega fráleitt að hann skuli ekki vera viðstaddur umræðuna. Hann sagði í óundirbúnum fyrirspurnum í gær að tillagan væri ámælisverð fyrir þær sakir að í henni væri gert ráð fyrir því að gert yrði uppskátt um nöfn þeirra sem hlut ættu að máli hvað varðaði skattaskjól og eignir í þeim. Það er málefnalegt sjónarmið sem er alveg hægt að rökræða með hvaða hætti eigi að opinbera eða gera almenningi aðgengilegar upplýsingar af þessum toga en það er ekki rökrétt sem hæstv. ráðherra sagði hér í gær, að vegna þess að flutningsmenn þessarar tillögu og aðrir stjórnarliðar á síðasta þingi hefðu stutt löggjöf um CFC-skattlagningu hefðu þeir þar með fyrirgert rétti sínum til þess að grípa með einhverjum hætti til aðgerða til að takmarka eign í skattaskjólum, grafast fyrir um þær eða grípa til einhverra frekari aðgerða gagnvart þeim. CFC-löggjöfin sem lögfest var á síðasta kjörtímabili var nauðvörn til að tryggja að tekjur úr aflandsfélögum kæmu til skattlagningar á Íslandi óháð öllu öðru. Hún fól ekki í sér almenna viðurkenningu á að skattaskjól svo uppgefin væru jákvæður og uppbyggilegur þáttur í íslensku atvinnulífi.

Mér þykir því ekki rétt að stilla málum upp með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerði að þessu leyti. Ég get hins vegar alveg tekið undir með honum með að það má ræða í nefnd með hvaða hætti nákvæmlega birtingu upplýsinganna sem þarna yrði að veruleika yrði hagað. Hitt er alveg ljóst að það er mjög mikilvægt að heildarrannsókn fari fram á umfanginu og að í því skyni verði skapaðir möguleikar til að fá upplýsingar frá slitabúum hinna föllnu banka því að við vitum ekki neitt um umfang þessara viðskipta annars staðar en bara í gegnum Mossack Fonseca og Landsbankann.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri en ítreka þakkir til flutningsmanna fyrir að flytja þetta mál og vonast til að það fái greiða og góða vinnu í nefnd.