145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

afgreiðsla þingmála fyrir þinglok.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tel varðandi fyrstu spurningu hv. þingmanns nægan tíma til stefnu til að stjórnsýslan sé bæði vönduð og fagleg. Það er þannig eins og hv. þingmaður veit að við höfum óskað eftir því að forsætisnefnd endurskoði starfsáætlun þingsins með það fyrir augum að hægt verði að ljúka þessum fjölda mála. Hv. þingmaður nefndi til að mynda þann fjölda sem er í vinnslu þingsins nú þegar, svo er annar hluti sem á eftir að mæla fyrir og koma í vinnslu. En með það plan sem við höfum rætt, að vera hér eins lengi fram í júní og eðlilegt er án þess að raska forsetakosningum og undirbúningi þeirra og koma síðan saman aftur í ágúst að afloknum sumarfríum, þá er fjöldi þingdaga nægur. Ef maður ber það saman við það til að mynda að við hv. þingmaður höfum setið á þingi jafn lengi og höfum oft staðið frammi fyrir því að vera með 50–60 mál þegar hálfur mánuður er eftir af þingi, hvort sem um er að ræða haustþing eða vorþing, og hafa lokið þeim allflestum, þá tel ég þennan lista ekki lengri en svo.

Varðandi síðan tillögur til stjórnarskipunarlaga hef ég tekið það upp við forustumennina hvort við ættum ekki að reyna að ljúka því verkefni. Það er mín skoðun að þar séu góðar breytingar nauðsynlegar. Ég nefni um auðlindir í eigu þjóðar og aukinn rétt almennings til þátttöku svo dæmi séu tekin. Það er rétt að nefndin hefur ekki lokið störfum enn. Þegar hún hefur lokið störfum tel ég eðlilegt að við tækjum þessa umræðu upp við borð formanna stjórnarflokkanna eða stjórnmálaflokkanna (Forseti hringir.) á þingi og mundum komast að því hvernig skynsamlegast væri að leysa úr því.