145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

Fell í Suðursveit og Jökulsárlón.

725. mál
[16:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Já, ég tek sannarlega undir með fyrirspyrjanda að þetta hafi verið ánægjulegar umræður og einkar jákvæðar. Við skynjum að við höfum tækifæri til inngripa, en ég er ekki fjármálaráðherra og alltaf þarf maður að sækja fé.

Til að svara síðustu spurningunni sem hv. þingmaður setti fram þá get ég persónulega verið algjörlega sammála því að helstu náttúruperlur okkar þurfi kannski að vera í eigu ríkisins til að við getum gengið um þær með þeim hætti sem verður að ganga um þær og til að geta haft það allt í réttu lagi. Og það varðar meðal annars það stórkostlega og viðkvæma svæði sem við erum að fjalla um, að okkur finnst umgengnin þar ekki vera í nógu góðu lagi, og það er kannski það alversta. Því að fyrst og fremst, eins og hér hefur komið fram hjá öllum, er það þessi samhljómur og samhugur þegar kemur að náttúruperlum okkar. Við Íslendingar viljum ekki hvorki gagnvart okkur sjálfum né erlendum ferðamönnum sýna okkar helstu staði í niðurníðslu. Á því verður að taka.

Við höfum hlustað í dag á hæstv. fjármálaráðherra, hjarta hans slær einnig mjög til náttúrunnar eins og við höfum skynjað. Við skulum bara öll treysta á það að málið leysist farsællega.