145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Forseti. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi það að Íslendingar sæki sér menntun erlendis frá? Þykir mönnum það góð hugmynd eða vond? Einhver mundi ætla að svarið lægi í augum uppi, maður skyldi ætla að það væri góð hugmynd, gott og mikilvægt mál fyrir íslenskt hagkerfi að við styddum við námsmenn erlendis svo þeir kæmu síðan heim reynslunni og þekkingunni ríkari, gerðu þannig íslenskt samfélag auðugra, víðsýnna og fjölbreyttara. Maður skyldi ætla að fólk væri almennt sammála um þetta.

En ég velti fyrir mér stefnu ríkisstjórnarinnar og hvernig hún og hæstv. menntamálaráðherra sjá þessi mál fyrir sér því að undir hans stjórn hefur LÍN dregið niður lánaþakið til námsmanna erlendis um tugi prósenta. Þetta er gert að því er virðist, að minnsta kosti núna, út frá afar hæpnum forsendum, afar hæpnum heimildum sem við höfum fengið fregnir af frá nemendum og skólum erlendis að standast ekki.

Fyrirtækið Analytica sem vann málið fyrir LÍN núna síðast segir í viðtali við RÚV að heimildir sínar sem liggja til grundvallar síðustu lækkun virki trúverðugar. Þurfa þær ekki að vera réttar? Er það ekki lágmarkskrafa? SÍNE, Samband íslenskra námsmanna erlendis, hefur ítrekað reynt að fá svör frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um þessi efni. Það hefur lagt fram gögn sem sýna að forsendur ráðgjafarfyrirtækisins, sem væntanlega hefur fengið einhverjar milljónir fyrir vinnu sína, eru ekki réttar en SÍNE fær ekki svo mikið sem eitt svar. Hæstv. ráðherra virðir sambandið ekki viðlits. Maður hlýtur að velta fyrir sér fyrir hvern sá ágæti maður vinnur, námsmenn eða einhverja aðra.

Að lokum velti ég fyrir mér, af því að nú er komið sumar, hvað sé að frétta af Stjórnstöð ferðamála. Það verður fróðlegt að ræða það og fá að heyra af því í sölum þingsins áfram.


Efnisorð er vísa í ræðuna