145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef velt því mikið fyrir mér undanfarið hvað við séum nákvæmlega að gera hér á Alþingi. Nú hefur ekki farið fram hjá okkur frekar en öðrum að íslensk stjórnmál eru í gríðarlegri kreppu í kjölfar Panama-skjalanna og afsögn fyrrverandi forsætisráðherra. Við finnum það alls staðar í samfélaginu að traust á íslenskum stjórnmálum er á algerum botni. Við sjáum það í skoðanakönnunum sem sýna fylgi sveiflast á milli einhverra stjórnmálaflokka að stærsti hópurinn, 40–50%, treystir sér ekki til að styðja neinn þessara flokka. Þetta er auðvitað pólitísk krísa. Á Alþingi erum við fyrst og fremst að rífast um það hvort mitt lið sé betra en þitt lið. Hvort stjórnin sé ekki alveg frábær af því að hér mælist hagvöxtur, sem er auðvitað ekki síst í krafti aukinnar ferðamennsku og lágs olíuverðs, eða að stjórnarandstaðan sé svo fullkomlega frábær vegna þess að hún sé hlutfallslega minna í Panama-skjölunum eða ég veit ekki hvað.

Nú er liðinn heill mánuður frá því að segja má að Alþingi hafi fengið séns. Ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu að halda áfram við stjórnvölinn til þess að bjarga þjóðhagslega mikilvægum málum. En við erum enn þá eiginlega að bíða eftir því að sjá á hvað á að leggja áherslu. Í samfélaginu er verið að tala endalaust um heilbrigðismál, um málefni ungs fólks, um framtíðina, t.d. í tengslum við möguleika til náms og LÍN. Ég sakna slíkrar umræðu hér. Umræðan um aflandsfélög er mjög jákvæð og við eigum auðvitað að halda henni (Forseti hringir.) áfram, en ef Alþingi á að auka traust sitt (Forseti hringir.) eigum við að sýna lit í þeim málum (Forseti hringir.) sem fólk er almennt að hugsa um. Og vel á minnst, nú er að koma sumar. Hvað er að gerast í ferðamálunum hjá okkur?