145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:06]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst það mikið ánægjuefni að fá að taka til máls og bara vera hér á þingi þegar þessi fyrsta fjármálaáætlun, samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál, kemur út; og beinlínis tilhlökkunarefni að lesa skýrsluna þó ekki væri nema til að sjá hvernig þetta er í framkvæmd. Mér finnst þetta allt til mikilla bóta og það er mjög mikilvægt að við innleiðum þessi nýju lög, gerum það almennilega.

Ég verð líka að minnast á það sem hér hefur verið rætt, þ.e. að ekki er búið að skipa fjármálaráð. Mér finnst það ótækt. Þetta er samkvæmt lögum. Þetta er ekki flókið verkefni. Það snýst um að meiri hluti þingsins þarf að velja eina manneskju til að gegna nefndarsetu í þessu ráði. Forsætisráðherra þarf að velja eina manneskju og minni hlutinn eina. Minni hlutinn valdi sinn fulltrúa löngu fyrir páska og hefur svo beðið eftir því að meiri hlutinn og forsætisráðherra skipi sína tvo aðila. Mér finnst þetta mjög bagalegt og ef ráðherrar og þingmenn meiri hlutans ráða ekki við að finna tvær manneskjur í ráðið þá hrýs manni eiginlega hugur við því hvernig vinnubrögðin gætu orðið í einhverju öðru því að þetta getur ekki verið flókið. Fjármálaráð hefði átt að fylgjast með þessari vinnu ef það hefði haft áhuga á því. Það hefði átt að vera að lesa þessa áætlun og leggja mat sitt á hana. En ég vona og treysti því að þetta ráð verði skipað hið fyrsta.

Mig langar að fara ofan í ákveðna málaflokka. Mér finnst það jákvætt og reyndar mjög mikilvægt að framlög til framhaldsskólanna séu aukin því að staða þeirra hefur verið afar þröng. Á bls. 9 segir að stytting framhaldsskóla, úr fjórum árum í þrjú, sé stórt skref til að efla framhaldsskólanámið og muni jafnframt á komandi árum auka mjög framleiðslugetu hagkerfisins vegna þess að ungt fólk komi fyrr út á vinnumarkaðinn. Þegar við í fjárlaganefnd fáum fulltrúa úr ráðuneytunum á fund til okkar þá mun ég spyrja út í þetta. Ég er hlynnt því að stytta framhaldsskólann úr fjórum árum í þrjú, en er ekkert endilega viss um að það sé stórt skref í því að efla framhaldsskólanámið. Það fer eftir fjárveitingum og stefnu í málaflokknum þess utan. Og hvort það auki framleiðslugetu hagkerfisins gríðarlega; við getum í sjálfu sér ekkert sagt til um það enn þá. Við vitum ekkert hvað ungt fólk fer að gera, hvort þetta kallar á að ungt fólk fari í lengra nám eða hvort það fari í enn meiri mæli að taka sér ársfrí frá skóla og ferðast um heiminn eða hvað það gerir. Mér finnst miklar fullyrðingar hér, en gott að fjárframlög verði aukin.

Að sama skapi sýnist mér að háskólastigið hefði líka þurft hærri fjárframlög. Ef við horfum á það hvað við setjum mikið í þessi skólastig miðað við önnur OECD-ríki þá vantar upp á hvað varðar framhaldsskólana og háskólana. Ef ég horfi á fjárlögin 2016 — undir þessum málaflokki eru háskólar, rannsóknastarfsemi á háskólastigi og stuðningur við námsmenn, sem er þá LÍN — og síðan áætlunina fyrir 2017, þá er ekki mikil aukning í þennan málaflokk. En við eigum eftir að sjá, og það er eitthvað sem við í fjárlaganefnd munum þá biðja um, hvað menn eru nákvæmlega að tala um í fjárhæðum í háskólastigið eitt og sér. Hér er bara samtalan fyrir allt málefnasviðið. Ég hef áhyggjur af háskólastiginu.

Áhersla er lögð á að háskólar efli samstarf sitt. Þá er rétt að rifja upp að samstarfsnet háskóla var lagt niður, hvort það var í fjárlögum 2014, en það varð einmitt til þess að háskólar gætu eflst og starfað meira saman. Stjórnvöld höfðu ekki mikinn skilning á því, en hér er samt sem áður talað um að leggja eigi áherslu á samstarf. Einnig er talað um að skoða eigi í hvaða tilvikum sameining háskóla eða rannsóknastofnana teljist vera fýsileg leið, en mönnum hefur ekki orðið mikið ágengt í því, og hefur menntamálaráðherra haft þrjú ár til þess að grípa til einhverra aðgerða hvað það varðar. Ég nefni þetta hér til að benda á að við göngum út frá því að þetta sé stefna og þetta sé eitthvað sem eigi að fara að framfylgja, a.m.k. þessi ríkisstjórn, kæmist hún aftur til valda eða sæti áfram, og við viljum að hún sé raunhæf, að menn séu ekki að lofa einhverju sem þeir geti ekki staðið við.

Mig langar aðeins að hoppa yfir í annað. Á bls. 17 er talað um brottflutning frá landinu en nú er, eins og ríkisstjórnin þreytist ekki á að benda á, hagurinn að vænkast hjá allmörgum að minnsta kosti. En það sem er að gerast á sama tíma er að töluverður hópur fólks er að flytja frá landinu. Hér segir að um óvenjumikinn brottflutning sé að ræða miðað við að við séum í uppsveiflu. Mér finnst frábært að erlendir ríkisborgarar séu að flytja til landsins. Ég held að þessi einsleita þjóð hafi bara gott af því. En ég vil helst ekki missa of marga í burtu á sama tíma. Þetta er því klárlega eitthvað sem við ættum að hafa verulegar áhyggjur af og ættum að sporna gegn.

Til að vera á jákvæðum nótum þá er ég mjög ánægð með að gert sé ráð fyrir því í áætluninni að byrja aftur að greiða 5 milljarða á ári inn á B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það er gríðarlega mikilvægt. Ef það yrði ekki gert færi sjóðurinn í þrot árið 2030 og þá þyrfti ríkissjóður að greiða 13 milljarða árlega vegna bakábyrgðar. Það er því mjög mikilvægt, um leið og við höfum borð fyrir báru, að við byrjum að greiða aftur inn á þessar uppsöfnuðu lífeyrisskuldir. Það er hið besta mál.

Ég er líka ánægð með að mikil áhersla er lögð á að greiða niður lán. Við erum mjög skuldsett og vaxtagreiðslur eru háar. Við í Bjartri framtíð höfum verið óþreytandi við að minna á að þessi ríkisstjórn setti 80 milljarða í skuldaniðurfellingu sem við hefðum viljað setja í niðurgreiðslu skulda. Það var ekki góð ráðstöfun að okkar áliti.

Við munum eftir því varðandi málaflokkana, það er eitthvað sem þyrfti að spyrja út í, að þegar fyrrverandi forsætisráðherra tók við voru málaflokkar færðir undir ráðuneytið; ýmsir málaflokkar sem snúa að þjóðmenningarmálum voru teknir úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu, eins Hagstofa Íslands, og rekstrarlegt umfang ráðuneytisins ríflega þrefaldaðist. Einnig voru settar á fót tvær nýjar skrifstofur, skrifstofa þjóðmenningarmála og skrifstofa þjóðhagsmála, og ný stofnun, eða hvað á að kalla það, húsameistari ríkisins. Einnig erum við með fasteignir Stjórnarráðsins þarna undir sem ég mundi telja að ættu að heyra undir fasteignir ríkisins. En spurningin er: Á þetta að vera svona áfram? Ég hafði á tilfinningunni að þetta væri kannski persónulegt áhugamál þáverandi forsætisráðherra og ekkert endilega besta tilhögunin í þessum málaflokki. Ég hefði haldið að best væri að halda málaflokkum saman sem tilheyra menningarmálum og velti því fyrir mér hvort menn ætla að breyta þessu. En miðað við þessa áætlun lítur ekki út fyrir það. Mér finnst ástæða til að minna á að allar slíkar ákvarðanir sem ráðherrar fara í, að flytja og færa málaflokka á milli, verða að vera vel ígrundaðar en ekki stafa af því að ráðherra hafi sérstakt áhugasvið og sölsi þá ákveðna málaflokka undir sig. Mér finnst þetta ekki til eftirbreytni. Miðað við það sem ég les hér virðist ekki eiga að breyta þessu. Það þurfum við kannski að skoða betur.

Þegar farið er yfir málaflokkana, stefnu og markmið og áherslur og aðgerðir, finnst mér víða vel að verki staðið. Ég held að það sé mikilvægt að ráðuneytin skilgreini málaflokkana með þessum hætti og séu með stefnu til framtíðar. Þó að þetta sé eflaust mikil vinna í upphafi er gott að vinna þetta svona. En mér finnst misjafnt eftir málaflokkum hversu ítarleg stefnan er og áherslur og aðgerðir. Þetta er fyrsta áætlunin, ég tek það fram, og góð sem slík, ég geri ekki lítið úr því. En þegar ég var til dæmis að lesa um byggðamálin á bls. 120, sem ég hef áhuga á, þá eru framlög til sveitarfélaga, sem væntanlega er Jöfnunarsjóður, 21 milljarður. Síðan eru byggðamál 1,5 milljarðar. Það eru væntanlega sóknaráætlanir landshluta og Byggðastofnun og hugsanlega einhverjir vaxtarsamningar, þó að ég sé ekki alveg viss um að þeir séu undir atvinnuvegaráðuneytinu. En við þurfum, eins og hv. formaður fjárlaganefndar sagði, að fá skjölin sem liggja til grundvallar þessum tölum.

Mér finnst þessar aðgerðir og þessi markmið ótrúlega veigalítil. Hér stendur um byggðaþróun:

„Undirbúa, skipuleggja og fjármagna verkefni á sviði byggðaþróunar.“

Um sóknaráætlanir stendur:

„Semja við landshlutasamtök sveitarfélaga um að þau vinni sóknaráætlanir hvert á sínu starfssvæði og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra.“

Við munum að árið 2013 voru 400 milljónir settar í sóknaráætlanir landshluta. Í fjárlögum 2014 var gert ráð fyrir 15 milljónum. Það var skorið þannig niður. Svo var það hækkað upp í 100 milljónir í 2. umr. Aftur ári seinna var gert ráð fyrir 15 milljónum. Hver er stefnan hér? Mér finnst það skipta máli hvort menn eru að tala um 100 milljónir í þann málaflokk eða 500. En miðað við þær tölur sem ég sé hér þá veit ég það ekki, ég þarf að fá að sjá það.

Mér finnst þetta allt svolítið opið og loðið. Um byggðaþróun segir:

„Skipuleggja og vinna að atvinnuráðgjöf í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra haghafa.“

Hvað þýðir þetta? Ég hefði viljað sjá meiri og betri stefnu í þessum kafla vegna þess að ég upplifi það þannig að það sé engin byggðastefna í þessu landi.

Varðandi löggæslu og dómskerfið þá er ekki að sjá að miklar breytingar séu þar eða mikil fjárútlát. Hækkun á fjárveitingum verður mest í heilbrigðiskerfið. Við getum öll verið sammála um að ekki veitir af, en það er bara svo víða þar sem annaðhvort þyrfti að auka fjárveitingar eða ná fram meiri skilvirkni og hagræðingu. Ég held að sums staðar sé það hreinlega ekki hægt, en eflaust er víða hægt að fara í kerfisbreytingar. Það er ekki mikið um slíkt í þessari áætlun.

Kaflinn um ferðaþjónustu er mjög metnaðarfullur. Það er ekki seinna vænna að þessi ríkisstjórn fari að sýna á spilin hvað það varðar. Þar finnst mér meiri byggðastefna koma fram en í kaflanum um byggðaþróunina. Talað er um að fjölga ferðamönnum um allt land og ég held að það sé mjög mikilvægt. Það þarf að fara í markvissar aðgerðir til að það gerist, það gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf til dæmis að vera fært að Dettifossi ef við ætlum að selja Dettifoss á veturna.

Allt í allt þá er ég mjög ánægð með að hafa fengið þetta plagg í hendur þó að ég hafi ýmislegt við það að athuga. Ég hlakka til að fá að fylgja því eftir í fjárlaganefnd.