145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[16:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Sumir þingmenn hér í umræðunni hafa lýst því yfir að þeir séu ánægðir með tóninn sem kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Ég er það ekki. Ég verð að segja það bara af hreinskilni og fullri virðingu að ég er ekki ánægður með tóninn. Mér fannst koma fram í ræðu hæstv. ráðherra að við værum þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi til að taka á skattsvikum í aflandsfélögum. Það eru aldeilis tíðindi. Það væru nú aldeilis tíðindi ef við værum það ekki, ef við værum ekki þátttakendur í slíku samstarfi. Ég geri ráð fyrir og hef alltaf gert ráð fyrir að við værum það og að við eigum að leggja okkar af mörkum í því. Jú, loksins hefur verið farið í það verkefni að kaupa gögn sem gefa til kynna umfangsmikil skattsvik í aflandsfélögum, það er verið að vinna úr þeim gögnum núna en reyndar eru Panama-skjölin viðameiri og varpa ljósi á miklu víðtækari möguleg undanskot. Við erum þátttakendur í aðgerðum gegn peningaþvætti. Þó það nú væri. Við erum það. Það er gott. Jú, það er tilefni til þess núna eftir allt þetta sem á undan er gengið að áætla kannski tekjutap og umfang skattundanskota í aflandsfélögum. Mér finnst það kannski það minnsta sem hægt væri að gera. En líklega eru þessar tölur sem hafa verið nefndar um skattsvik ýktar. Þetta var tónninn.

Gott og vel. Kannski eru margir ánægðir með það. Þetta er vissulega málefnalegt og allt það og ríkt að efnislegu innihaldi, en hvers sakna ég í þessu? Mér líður sem Íslendingi, út af allri þessari umfjöllun um Panama-skjölin undanfarið, eins og ég hafi verið hafður að fífli. Um hvað höfum við deilt í íslensku samfélagi undanfarna áratugi? Til dæmis það hvernig við viljum mögulega selja aðgang að takmörkuðum gæðum. Veiðiheimildirnar, kvótakerfið og það allt saman. Er ekki nokkuð augljóst að margir þeir sem hafa fengið aðgang að þeim gæðum á verði sem er langt undir markaðsvirði, held ég að mér sé alveg óhætt að segja, hafa tekið þennan pening og sett hann til Tortólu eða eitthvert annað? Af hverju erum við ekki brjáluð yfir því? Af hverju eru þeir sem verja kvótakerfið og það allt saman ekki líka brjálaðir yfir því? Þeir sem fengu afskriftir eftir að hafa farið hérna um þjóðfélagið í tómri ævintýramennsku fyrir hrun og fengið lán hjá bönkum, það er að koma í ljós núna að peningurinn sem þeir fengu að láni og lenti síðan á íslensku samfélagi, hann er á Tortólu. Af hverju eru ekki allir brjálaðir yfir því? Af hverju er hæstv. fjármálaráðherra ekki brjálaður yfir því? Af hverju líður honum ekki eins og mér og fleirum, að hann hafi verið hafður að fífli í þessu? Af hverju er þetta ekki alvarlegt mál? Af hverju eru þeir flokkar sem tala fyrir því að við höldum krónunni á Íslandi sem gjaldmiðli ekki brjálaðir yfir því að leiðtogi ríkisstjórnarinnar, fyrrverandi, sem hrökklaðist frá, var með sinn auð í erlendri mynt, í aflandsfélagi? Ég er búinn að vera að hlusta eftir því í allri þessari umræðu hvort einhver fulltrúi stjórnarliða í þessari umræðu ætli að fordæma bara það eitt og sér, þá hræsni sem í því felst og þann óheiðarleika. Pólitískt. Það gerir það enginn.

Ræðum stóriðjuna í landinu. Það kom í ljós í dag samkvæmt greiningu að hún nýtur um 34% lægra orkuverðs en almennt markaðsverð orku er á heimsmarkaði. Hún nýtur ýmissa ívilnana. Þeir eru margir hérna baráttumenn þessara ívilnana sem hafa verið að bjóða stóriðjunni fjárfestingarsamninga með alls konar heimildum til að borga ekki tiltekin gjöld. Það hefur lengi legið fyrir að stóriðjan nýtir sér lágskattasvæði til að flytja hagnað úr landi eftir augljósum bókhaldsbrellum. Af hverju er hæstv. fjármálaráðherra ekki jafn brjálaður yfir því og margir leiðtogar OECD-ríkja? Af hverju eru til dæmis heimildir í fjárfestingarsamningum til að fara í bókhald þessara fyrirtækja ekki nýttar? Þær eru fyrir hendi. Aldrei verið nýttar.

Þannig að nei, hæstv. forseti, ég er ekki ánægður með tóninn. Ég er ekki ánægður með að menn skuli ekki fatta hversu ótrúleg pólitísk tíðindi það eru að Ísland hafi verið uppgötvað, afhjúpað, sem það land sem er í fararbroddi í því að eiga aflandsreikninga (Gripið fram í.) og geta ekki sett það einu sinni í samhengi við allar þær miklu deilur sem hafa átt sér stað í íslensku samfélagi á undanförnum áratug um það t.d. hvernig við eigum að hætta að selja langt undir markaðsvirði aðgang að náttúruauðlindum okkar. Hafa þær ekki bara verið fluttar á Tortólu?