145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni.

[13:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú liggja fyrir þau áform hæstv. heilbrigðisráðherra um að bjóða út rekstur þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Við hæstv. ráðherra höfum áður átt orðastað um þessi mál. Eins og ráðherra er kunnugt hef ég lagt fram nokkrar spurningar um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu almennt því að það eru margar spurningar sem vakna þegar svona stór ákvörðun er tekin. Til að mynda hefur hæstv. ráðherra sagt að ekki verði greiddur arður út úr þessum einkareknu heilsugæslustöðvum. Við vitum hins vegar að úr þeim tveimur einkareknu heilsugæslustöðvum sem nú þegar eru á höfuðborgarsvæðinu er greiddur arður. Ég hef lagt fram skriflega fyrirspurn til ráðherra og spurt eftir þessu. Svarið var að algjörlega sambærilegar kröfur væru gerðar til allra stöðva og ég spyr þá: Þýðir það að arður sé greiddur út eða ekki greiddur, herra forseti? Hæstv. ráðherra hefur sagt í öðru svari við fyrirspurn frá mér að ekki sé eftirlit með arðgreiðslum út úr samningum sem hið opinbera gerir við aðila sem veita einkarekna heilbrigðisþjónustu. Allt vekur þetta fleiri spurningar en það svarar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um þetta í ljósi þess að þessi áform eru afar umdeild og við höfum skoðanakannanir sem sýna að stór meiri hluti almennings telur eðlilegt að heilbrigðisþjónustan sé fyrst og fremst rekin af hinu opinbera, ekki bara fyrir opinbert fé heldur rekin af hinu opinbera, og þetta hefur verið sýnt fram á í rannsóknum. Skoðanakönnun sem Rúnar Vilhjálmsson hefur vitnað í sýnir að um 80% landsmanna eru þessarar skoðunar þannig að þetta er mjög umdeild ákvörðun sem hæstv. ráðherra er að taka. Ég vil spyrja hvort hann sé ekki sammála mér um það, þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi ýmsar heimildir innan síns lagaramma, að eðlilegt sé að svona ákvarðanir sem snúast um grundvallarbreytingu í heilbrigðisþjónustunni, fari fyrir Alþingi, að Alþingi fái tækifæri til að leggja mat á þetta (Forseti hringir.) og greiða um það atkvæði þannig að hæstv. ráðherra hafi skýran vilja Alþingis á bak við sig.