145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

[14:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra en ég er samt ekki fullsátt við svarið. Við búum svo sannarlega við slæmt greiðslukerfi og frumvarp ráðherra bætir það. En það er ekki hægt að breyta kerfinu með þeim hætti að 120 þúsund manns sem leita sér heilbrigðisþjónustu eigi að bera uppi þá kerfisbreytingu. Það verðum við að gera með skattfé þannig að það leggist á okkur öll 320 þúsund. Þannig er það bara og ég vona að ráðherra sé sammála mér því að hitt mun ekki ganga. Annars lenda viðkvæmir hópar í allt of mikilli hækkun.

Varðandi þjónustustýringuna tek ég undir með ráðherra. En án meira fjármagns munum við innleiða mismunun gagnvart fólki eftir búsetu og fjárhag. Þess vegna verða að koma inn meiri fjármunir í heilsugæsluna. Ráðherra talar um þrjár nýjar heilsugæslur. Þegar ég les fjármálaáætlunina (Forseti hringir.) er ekkert sagt beinum orðum um aukið fé í heilsugæsluna. (Forseti hringir.) Textinn er loðinn og fyrir okkur sem höfum lesið svona texta áður þá vitum við (Forseti hringir.) að verið er að koma sér undan því að viðurkenna að ekki eigi að veita nægt fé. Hversu mikið fé ætlar hæstv. ráðherra að setja inn í heilsugæsluna?