145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:27]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er tímabær, löngu tímabær, því að áhrif mannlegra athafna á lífríki Mývatns eru ekki ný af nálinni. Þetta er margra ára syndasaga og a.m.k. þrír áratugir síðan það rann upp fyrir mönnum að t.d. kísilnámið í vatninu hefði óheillavænleg áhrif á lífríkið þar. Ofan á það álag hefur nú hraðvaxandi ferðaþjónusta með tilheyrandi ágangi valdið fosfórmengun í vatninu því að þangað fer jú frárennslið, svo nú er ekki bara bleikjan horfin heldur líka kúluskíturinn og tærleiki vatnsins farinn forgörðum. Þeir sem til þekkja telja að nú þurfi drastískar aðgerðir, eins og það var orðað í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins í gær. En til hvaða drastísku aðgerða er hægt að grípa? Getur 350 manna sveitarfélag staðið undir þeim frárennslis- og hreinsunarkröfum sem gera þarf til að endurheimta lífríki vatnsins? Er eðlilegt að lítið sveitarfélag standi undir slíku? spyrja menn. Vitanlega finnum við öll til samábyrgðar og til ábyrgðar ríkisins því að Mývatn er náttúruperla sem okkur finnst við eiga í sameiningu.

Ég ætla samt að vera líka svo djörf að leiða hugann að öðru í þessu samhengi, þ.e. ábyrgð ríkisins annars vegar og hins vegar lítils sveitarfélags sem hefur vald til að taka afdrifaríkar ákvarðanir um mikla atvinnuuppbyggingu en ekki bolmagn til að taka afleiðingunum af því. Það vekur ákveðnar spurningar um valdsmörk og samstarf ríkis og sveitarfélaga, sem mig langar til að (Forseti hringir.) koma betur að í seinni ræðu minni. Það leiðir líka hugann að tekjuleiðum sveitarfélaganna, sem ég fæ að koma að síðar.