145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[16:48]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að breyting sem lögð var til í 1. gr. frumvarpsins er að mestu óbreytt frá því frumvarpi sem lagt var fram á 141. þingi að öðru leyti en því sem bætt hefur verið við upptalningu á ákvæðum almennra hegningarlaga 210. gr. a og 210. gr. b.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, þar sem 210. gr. á 141. þingi innihélt líka 4. efnisliðinn sem fjallaði um barnaklám: Nú er það komið undir tvo aðra liði, 210. gr. a og 210. gr. b — hver er tilgangurinn með því að hafa 210. gr. eins og hún stendur núna, sem bann við dreifingu á klámi, bann við prentun á klámi og snýst ekki um að vernda börn nema í mjög afmörkuðum tilvikum, í þessari upptalningu? Þarna erum við að tala um að refsiramminn sé sex mánuðir. Það er mjög umdeilt hvort þessi 210 gr. eigi yfir höfuð að vera til staðar. Þetta eru lög sem hafa ekki breyst, eru orðrétt, frá 1869, eftir því sem ég best veit, og ég skil ekki alveg af hverju þetta á að vera inni þegar kemur að símahlustunum eða hlerunum. Mig langar að vita hver rökstuðningurinn er fyrir því að hafa þetta inni og hvort þetta er eitthvað sem kannski væri vert að athuga betur.