145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Í andsvari fyrr í umræðunni gerði ég grein fyrir afstöðu minni í þessum málum. Um leið og ég tel að menn eigi að samþykkja frumvarp af því tagi sem hér er undir í umræðunni er ég þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að hafa lýðræðislegt eftirlit með framkvæmd þeirrar eftirlitsheimildar sem Alþingi veitir. Það kom fram, í ræðu eins af fyrri ræðumönnum undir þessu máli, að það væri mál sem tekið væri til skoðunar í frumvarpi sem rætt verður hér á eftir, um eftirlit með lögreglulögum, það er á dagskrá síðar.

Það frumvarp sýnist mér í mörgum greinum, jafnvel að meginefni, vera nokkuð í sömu veru og þingsályktunartillaga Pírata frá því fyrir einum tveimur árum. Ég tók þátt í þeirri umræðu með frænda mínum, hv. þm. Geir Jóni Þórissyni, og fór ekki hnífurinn á millum okkar í afstöðunni þar. Ég minnist þess að ég spurði þá þann ágæta þingmann, hávaxnasta alþingismanninn og lögreglumanninn á Íslandi í dag, hvort hann væri ekki sammála mér um að hafa þyrfti lýðræðislegt eftirlit með ýmsum störfum lögreglunnar. Hann var mér alveg sammála um það.

Þegar ég les það frumvarp sem er til umræðu hér á eftir þá er hvergi hægt að sjá neitt slíkt, nema hugsanlega með góðri túlkun á 5. tölulið 2. gr. þar sem er talað um hlutverk eftirlitsnefndar en þá því aðeins ef hún tekur það upp hjá sjálfri sér að æskja eftir tilteknum upplýsingum frá ríkissaksóknara eða öðrum. Það má líka segja að í þessu frumvarpi felist ákveðin vörn fyrir þann sem sætir hlustunum í því að stjórnvaldinu ber skylda, verði frumvarpið að lögum, til að upplýsa þann sem sætir slíkri skerðingu á persónufrelsi um það innan tiltekins tíma. Það kann að vera að menn telji að þar með sé málið í gadda slegið. Ég er ekki þeirrar skoðunar.

Ég tel að við þurfum að horfa á söguna í þessu tilviki og hún er ekkert sérlega glæsileg. Við höfum orðið vitni að því að þrátt fyrir þá vernd sem stjórnarskráin, 71. gr., gefur mönnum í þessum efnum þá hefur lögreglan bókstaflega fylgst með mönnum og hún hefur hlerað síma manna sem hafa átt sæti hér á Alþingi Íslendinga, manna sem hafa stýrt pólitískum málgögnum og sem hafa verið forustumenn í verkalýðshreyfingunni. Þá kann vel að vera að fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins hugsi með sjálfum sér: Ja, það var á tímum kalda stríðsins og þá geisuðu hörð pólitísk átök. Það voru flokksbræður mínir, ekki úr Alþýðubandalaginu heldur úr Alþýðuflokknum, það var til dæmis forseti Alþýðusambands Íslands sem átti sæti hér á Alþingi Íslendinga; menn voru hleraðir í verkföllum.

Ég tel að það þurfi að vera í gadda slegið að það komi aldrei fyrir að sá sem er kjörinn af þjóðinni til að sitja hér á löggjafarsamkundunni verði hleraður af þeim sem hugsanlega eru pólitískir andstæðingar hans. Það má aldrei gerast. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að einhvers konar eftirlit þurfi að koma til; við getum kallað það lýðræðislegt eftirlit. Ég hef talað um að hugsanlegt sé að einhverjir sem sæti eiga í allsherjarnefnd Alþingis gegni þessu hlutverki. Það eru ýmsar leiðir til þess. Á sínum tíma voru slíkar hugmyndir reifaðar hér af þáverandi dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni.

Ég sat í nefnd sem undirbjó frumvörp sem aldrei náðu fram að ganga. Þar var því velt upp að til dæmis yrði farið að fordæmi Portúgala sem hafa slíkt lýðræðiseftirlit á þann veg að tveir fulltrúar stjórnarandstæðinga og einn frá stjórninni hafa fulla heimild til að ganga hvenær sem er inn í þær stofnanir lögreglu sem hafa slíkt eftirlit með höndum og krefjast allra upplýsinga sem þeir vilja. Ég tel að eftirlit af því tagi sé brýnt ef við ætlum að vera viss um að þessar heimildir verði aldrei nýttar í óeðlilegum pólitískum tilgangi.

Nú geta menn sagt að á vorum tímum sé staðan þannig að það sé harla ólíklegt og kannski fræðilega útilokað að það gerist nokkru sinni. En stjórnvaldið verður alltaf að hugsa fyrir því sem er óhugsanlegt. Tímarnir geta breyst. Pólitískar aðstæður á Íslandi geta breyst algjörlega. Ég er ekki að beina þessu til eins eða neins stjórnmálaflokks. Við verðum einfaldlega að tryggja að í framtíðinni verði heimildum sem við veitum lögreglunni til að fylgjast með glæpamönnum ekki misbeitt í pólitískum tilgangi. Sagan kennir okkur að heimildum af þessu tagi hefur verið misbeitt af framkvæmdarvaldinu til að fylgjast með pólitískum andstæðingum. Það má ekki gerast aftur. Ég er líka þeirrar skoðunar að þegar slíkt eftirlit er komið á sé hægt að ganga lengra í því að veita slíkar heimildir. Ég er ekkert á móti því svo fremi sem það er algjörlega tryggt að þeim verði aldrei misbeitt.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra — hún ræður hvort hún svarar því undir þessari umræðu eða í umræðum um frumvarpið um breytingu á lögreglulögum sem fjallað verður um hér á eftir — um skýringar hennar á því hvernig frumvarpið sem er til umræðu undir þessum dagskrárlið og síðara frumvarpið svara þessu; en einn hv. þingmaður sagði hér áðan að því væri svarað í þessum frumvörpum. Ég sé ekki að það sé mjög skýrt í því frumvarpi sem við ræðum hér á eftir og það er alls ekkert um það í þessu frumvarpi. Þetta er lykilatriði í málinu.