145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[11:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Framsóknarflokkurinn hefur ekki náð markmiði sínu varðandi verðtrygginguna; það mál er í nefnd. Flokkurinn hefur heldur ekki náð markmiðum sínum varðandi húsnæðisbætur; það mál er líka í nefnd en er að vísu komið hér inn í þingið.

Hér sjáum við loksins margboðað frumvarp unnið af velferðarnefnd um almennar íbúðir. Það mál tók þrjú ár. Hvað er það sem dvelur þennan langa orm Framsóknarflokksins? Jú, það er misklíð á stjórnarheimilinu, það er Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur móast gegn þessu máli. Hvað veldur því að þetta mál, sem við höfum öll beðið eftir, er þó komið svona langt? Það er mjög einföld skýring á því. Þetta mál er komið á þetta vinnslustig vegna þess að stjórnarandstaðan hefur verið einbeitt í því að tosa málið áfram með tilstyrk verkalýðshreyfingarinnar. Það er ekki Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum að þakka að málið er komið á þetta stig, það er stjórnarandstaðan sem hefur náð því á þennan punkt í dag.

Það sem vekur mér síðan undrun er að sjá að þetta er allt annað frumvarp en kom inn í þingið. Ég man ekki til þess að hafa séð frumvarp koma fram sem unnið er af þinginu og fyrir liggja breytingartillögur á tíu síðum. Ég held að Framsóknarflokkurinn megi þakka hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, ekki síst Steingrími J. Sigfússyni og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir þær gagngeru og góðu endurbætur sem eru á málinu. Það breytir ekki hinu, herra forseti, að þó að ég fagni þessu máli þá óttast ég hvernig það tekur á vandamálinu sem fyrir er.

Samkvæmt stefnunni sem þetta frumvarp byggir á á að setja 1.500 millj. kr. í verkið í fjögur ár, en það þýðir um það bil 400 leiguíbúðir á ári. Það er góðra gjalda vert. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Telur hún að 400 íbúðir á ári í fjögur ár leysi þann vanda sem við er að glíma á leigumarkaðnum?