145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég mun alls ekki lengja þessa umræðu mikið. Ég tek undir með framsögumanni, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, að hér hefur verið ágætisumræða um þetta mál. Hún hefði að ósekju að mínu mati mátt vera enn breiðari og hefði verið gaman að heyra hér í forustumönnum flokka og jafnvel sjá framan í einstöku ráðherra þegar við ræðum þennan risavaxna málaflokk sem eru húsnæðismálin. Vonir hafa verið bundnar við að hér væri verið að koma með talsvert innlegg í úrbót þeirra mála, að minnsta kosti á einu sviði sem varðar framboð á leiguíbúðunum.

Ég held að það sé þó rétt að vera niðri á jörðinni hvað það snertir að jafnvel þótt þessi áform gangi eftir og hér verði byggðar nokkur hundruð íbúðir í fjögur, fimm ár miðað við fyrstu áform eða fyrsta plan, er það næstum eins og dropi í hafið vegna þess að það þarf svo miklu meira til. Við munum með þessu einu ekki vinna að neinu ráði niður kúfinn sem þarf að gera til þess að komist á eðlilegt jafnvægi á fasteignamarkaði til dæmis hér á höfuðborgarsvæðinu. Að sjálfsögðu gerum við ráð fyrir að bæði einstaklingar og aðrir aðilar byggi íbúðir. Þetta hjálpar til og lagar vonandi aðeins hlutföllin á fasteignamarkaði að framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum vex hlutfallslega.

En það væri mikið óraunsæi að halda að þetta leysi allan þann vanda sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í sambandi við húsnæðismál, því miður er það ekki svo. Í raun og veru er það þannig að þegar liggur fyrir að það þarf umtalsvert meiri fjármuni inn í þetta af hálfu ríkis og sveitarfélaga næstu árin bara til þess að ná markmiðunum um þær 2.400 íbúðir sem menn ætluðu sér að byggja í fyrsta áfanga, einfaldlega vegna þess að fermetraverðið sem menn lögðu til grundvallar í byrjun reyndist fullkomlega óraunhæft. Það var einn stór ágalli á undirbúningi málsins að annars vegar byggðu menn á óraunhæfu kostnaðarverði fyrir höfuðborgarsvæðið, eins og ég held að ég hafi farið yfir, 274 þús. kr. á fermetrann í staðinn fyrir hátt í 400 þús. kr., og hins vegar var málið svo undarlega upp lagt í alla vega hinum útreikningslegu forsendum að þegar kæmi að landsbyggðinni yrði ekkert byggt í kerfinu heldur eingöngu keypt notað húsnæði sem auðvitað er algerlega óásættanlegt vegna þess að það vantar húsnæði. Það skortir meira húsnæði á mörgum stöðum á landsbyggðinni.

Það hefur verið lagað. Ef ríki og sveitarfélög eru tilbúin að mæta þeim endurreiknuðu kostnaðartölum sem nú liggja fyrir með hærri fjárframlögum í stofnframlög þá gengur þetta vonandi eftir og við sjáum nokkur þúsund íbúðir bætast inn á markaðinn í þessu nýja fyrirkomulagi. Þá er það vel.

Í öðru lagi vildi ég nefna, af því að ég hafði ekki tíma til þess í fyrri ræðu minni, að auðvitað hefur talsverð umræða verið í nefndinni og ekki síður víða í samfélaginu um sjálfan byggingarkostnaðinn. Hér gekk yfir mikið fár, sem nú er vonandi afstaðið, um að þar væri eini sökudólgurinn byggingarreglugerð, metnaðarfull byggingarreglugerð um altæka hönnun íbúða, um nútímaleg viðhorf í því hvernig íbúðarhúsnæði skyldi hannað og að fullnægja skyldi þörfum íbúanna og horfa til framtíðar. Einhverjar breytingar hafa nú verið gerðar á þessari reglugerð og ég heyrði í sérfróðum aðila í gær fjalla um að þær breytingar væru svo sem góðra gjalda verðar, gætu dregið örlítið úr byggingarkostnaði, en þær vægju mjög létt vegna þess að aðalvandamálið væri ekki útbúnaður og gæði íbúðanna, það er ekki það sem gerir byggingarkostnað svona dýran á Íslandi. Það er hátt lóðaverð sums staðar og það er dýr fjármagnskostnaður. Þar liggja hinar stóru meinsemdir, og svo auðvitað markaðsbrestur, þ.e. skortur á markaðnum sem skrúfar upp verðið og á sinn þátt í ástandinu á höfuðborgarsvæðinu þar sem það hefur gerst samtímis að stórir einkaaðilar hafa ruðst inn á markaðinn og keypt upp íbúðir og stofnað leigufélög sem þeir ætla að reka í ágóðaskyni og taka arðinn út úr kerfinu, og síðan keppir ferðaþjónustan um laust húsnæði í stórum stíl.

Ég vildi bara nefna þetta vegna þess að eftir stendur þörfin á því að skoða raunhæfar, málefnalegar aðgerðir til þess að reyna að ná þessum kostnaði niður, aðrar leiðir en þær að fara að veita afslátt á gæðum húsnæðisins.

Hér voru nafngiftir ræddar. Ég á ekki í neinum vandræðum með forskeytið félags-, að tala um almennar félagsíbúðir eða félagslegar íbúðir. Ég ætla nú seint að fara að gengisfella það góða hugtak þannig að ég gangist ekki við því. Ég skil út af fyrir sig þá hugsun að reyna að hafa sem almennasta nafngift á þessu þannig að menn reyni að ýta þeirri hugsun til hliðar að hér sé verið að aðgreina fólk eitthvað með því að það búi í þessu húsnæði. Mér finnst orðið „almennt“ ágætt í því sambandi. Mín vegna hefði þetta mátt heita alþýðuíbúðir eða almenningsíbúðir. En eitthvert nafn varð þetta að hafa og niðurstaðan varð þessi.

Við fundum síðan nýtt orð yfir félögin, sem sagt orðið húsnæðissjálfseignarstofnun, sem rímar við t.d. húsnæðissamvinnufélög, og ég held að sé ágæt lausn á því máli. Niðurstaðan er sú að þetta eru stofnanir en ekki félög og er betra að þær beri það í nafni sínu, það er gagnsærra, meira í anda íslenskunnar að við köllum hlutina réttum, gagnsæjum nöfnum.

Við færum inn í ákvæðin um stjórnir þessara félaga reglur um kynjahlutföll, sem er alveg sjálfsagt mál. Ég náði ekki að nefna það í ræðu minni og man ekki hvort einhver kom inn á það áður. Við reyndum að sjálfsögðu að hafa þessa löggjöf nútímalega að öllu leyti eins og varðandi það atriði.

Það er sömuleiðis mikilvæg breyting sem við gerum á samsetningu fulltrúaráða sjálfseignar- og húsnæðissjálfseignarstofnananna, að þar skulu sitja fulltrúar íbúanna, leigjendanna, og vera einn þriðji af fulltrúaráðinu ef því verður við komið. Í því er fólgið visst íbúalýðræði og aðhald frá notendum þjónustunnar og sjálfsagt mál að láta þess sjást stað í þeim efnum.

Svo vil ég gera einn þátt enn að umtalsefni sem er sú viðbót sem við settum inn í regluverkið sem varðar endurgreiðslur stofnframlaga og móttöku þeirra af hálfu þá eftir atvikum Húsnæðismálasjóðs eða sveitarfélaganna og utanumhald Íbúðalánasjóðs um það. Nú er það eðli máls samkvæmt augljóst að halda þarf utan um þau stofnframlög sem reidd eru fram af hálfu ríkis og sveitarfélaga til hvers og eins aðila. Í grunninn er gert ráð fyrir því að það fylgi hverri íbúð í þeim skilningi að ef hún er til dæmis seld út úr kerfinu eða nýting hennar gerbreytt eigi menn að endurgreiða þau stofnframlög, nema ef söluandvirði er ráðstafað til að kaupa nýja íbúð.

Það er í sjálfu sér vel viðráðanlegt og ekkert vandamál, held ég, þegar í hlut eiga smærri aðilar. Þetta eru t.d. skýrir afmarkaðir byggingaráfangar með 10–20 íbúðum og er haldið utan um það. En þegar í hlut eiga, sem vonandi verður í framtíðinni, stór og breið félög með stórt húsasafn þar sem menn hafa annars vegar byggt í mörgum áföngum heilmikið af stofnframlagi í íbúðum og keypt og selt íbúðir samtímis í kerfinu gæti þetta orðið talsvert utanumhald. Þess vegna leggjum við til það nýmæli að Íbúðalánasjóði verði heimilt að fallast á að framkvæmdaaðilarnir eða eigendurnir færi sérstakt stofnframlagabókhald. Þá yrði sérstaklega bókhaldslega haldið utan um hreyfingar út og inn, plús og mínus, veitt stofnframlög, seldar íbúðir, keyptar íbúðir á móti, mismuninn á þessu. Slíkt stofnframlagabókhald kæmi með reglubundnum hætti til uppgjörs. Þetta ímynda ég mér að gæti leitt til verulegs hagræðis fyrir samskipti þessara aðila og gert þau einfaldari og fækkað til muna þeim færslum fram og til baka sem annars þyrfti nánast stanslaust að vera að standa í. Ég held að menn ættu að gefa gaum að þeirri heimild sem þarna er komin við undirbúning framkvæmdarinnar og smíða utan um það reglugerð og bjóða upp á þann kost.

Þetta er auðvitað eitt af ótal mörgum framkvæmdaratriðum sem þarfnast undirbúnings og vinnu á komandi vikum og mánuðum. Við í nefndinni höfum örugglega ekki náð að róa fyrir hverja vík í þessu efni þó að við höfum vandað okkur eins og við gátum. Þá kemur það líka til að hér er verið að leggja upp í langt ferðalag. Að sjálfsögðu gefst tími til þess á komandi árum að huga að ýmsum framtíðarþáttum kerfisins sem ekkert mun reyna á fyrr en jafnvel eftir áratugi. Sýnist mönnum að búa megi betur um eitthvað af því þegar til endurgreiðslu (Forseti hringir.) stofnframlaga kemur eða annað slíkt er nægur tími til stefnu, auk þess sem við getum auðvitað farið eina umferð á þessu öllu saman í ágætri velferðarnefnd milli 2. og 3. umr.