145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

lokafjárlög 2014.

374. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. fjárln. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Tilgangur frumvarpsins er að staðfesta ríkisreikning ársins 2014 og er það með hefðbundnu sniði. Með frumvarpinu eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður afgangsheimilda og umframgjalda í rekstri ríkissjóðs fyrir árið 2014. Í frumvarpinu eru tvær lagagreinar. Annars vegar eru lagðar til breytingar á fjárheimildum vegna frávika á ríkistekjum stofnana, þ.e. fráviki áætlunar fjárlaga og fjáraukalaga við uppgjör ríkisreiknings fyrir viðkomandi tekjulið. Hins vegar eru gerðar tillögur um niðurfellingar á stöðu fjárheimilda í árslok 2014.

Í álitum um lokafjárlög undanfarin ár hefur nefndin vakið athygli á því að frumvarpið hefur aldrei verið lagt fram samhliða ríkisreikningi. Næst þessu komst frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2011 sem var lagt fram um fjórum mánuðum síðar en ríkisreikningur fyrir sama ár. Frumvarpið var nú lagt fram 30. nóvember sl., þ.e. um fimm mánuðum eftir framlagningu ríkisreiknings 2014.

Heildarheimildir ársins 2014, á rekstrargrunni, námu 657.293 millj. kr. að meðtalinni viðbót vegna uppgjörs ríkistekna en útgjöldin voru 642.489 millj. kr., um 14.804 millj. kr. lægri en fjárheimildirnar. Tillögur um niðurfellingar fjárheimilda miðast við að í heildina falli niður inneignir að fjárhæð rúmlega 6 milljörðum kr. umfram gjöld. Þar með eru nettó 8,6 milljarðar kr. heimildir umfram gjöld sem lagt er til að færist til næsta árs. Árið áður voru 12,9 milljarðar kr. færðar á milli ára og 14,8 milljarðar í árslok 2012 þannig að fluttar inneignir lækka annað árið í röð og hafa því sem næst helmingast að umfangi frá árinu 2012. Í athugasemdum með frumvarpinu er getið um helstu inneignir og umframgjöld sem færast á milli ára.

Virðulegi forseti. Áætlanagerð er oft og tíðum töluvert ábótavant og nauðsynlegt að ráðuneytið bæti áætlanagerð og eftirlit vegna stofnkostnaðar og ýmissa sérstakra tímabundinna verkefna.

Eins og áður segir gerir nefndin ekki breytingartillögur við frumvarpið en mælist til þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið yfirfari framvegis þá liði þar sem augljóslega er misræmi á milli einstakra viðfangsefna innan sama fjárlagaliðar. Ekki verður séð að það hafi verið gert við vinnslu frumvarpsins þrátt fyrir sambærilegar ábendingar nefndarinnar í nefndaráliti um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2013. Nefndin áformar að fylgja ábendingum sínum eftir í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Fjárlaganefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Ásmundur Einar Daðason er samþykkur álitinu en var ekki viðstaddur þegar málið var afgreitt úr nefndinni. Undir nefndarálitið skrifa hv. þm. Vigdís Hauksdóttir formaður, Guðlaugur Þór Þórðarson, Oddný G. Harðardóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Haraldur Benediktsson, Páll Jóhann Pálsson og Valgerður Gunnarsdóttir.