145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

barnabætur.

[13:48]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrir spurninguna frá hv. þingmanni. Það liggur fyrir að í ríkisfjármálaáætluninni er lagt til ákveðið fjármagn þar, auk þess sem ákveðnir fyrirvarar í áætluninni snúa að annars vegar fæðingarorlofinu og hins vegar breytingum á almannatryggingum. Ekki er nauðsynlegt að fara í lagabreytingar til að hækka þakið á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, hins vegar er nauðsynlegt að hafa fé og ríkisstjórnin er að tryggja það.

Hvað varðar breytingar eins og ég nefndi varðandi þær tillögur sem nefndin á mínum vegum kom með sem krefjast lagabreytinga er annars vegar lengingin á fæðingarorlofinu upp í tólf mánuði og hins vegar að verið er að bregðast við því sem við sáum við skerðinguna á fæðingarorlofskerfinu, að það voru tekjulægri feðurnir sem voru síður líklegir til að taka fæðingarorlofið. Ég vil þá aftur tengja við fyrra svar mitt, þ.e. óvissa varðandi atvinnulífið, (Forseti hringir.) efnahagsleg óvissa sem gerir að verkum að er helsta ástæðan fyrir því að fólk dregur (Forseti hringir.) að taka fæðingarorlof eða eignast börn. Og á því höfum við svo sannarlega tekið.