145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:28]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir svarið. Mér finnst það mjög gott. Ég er nefnilega sammála þingmanninum að þetta er atriði sem við þurfum að fara mjög vandlega yfir og reyna að mæta þeirri gagnrýni með einhverri skapandi hugsun. En ég minni á að við erum að tala svolítið í austur og vestur í allri þessari umræðu. Hér var flutt skínandi ræða um að þetta væri trénað landbúnaðarkerfi. Við getum haft 100 skoðanir á þessum hlutum. Við erum í sauðfjársamningnum að reyna að komast út úr gömlu ærgildakerfi, sem áhorfendur í þessari umræðu átta sig kannski ekki fullkomlega á, og ég held að við verðum að bera virðingu fyrir því sjónarmiði. En ég er sammála þingmanninum um að við þurfum að fara varlega í þetta. Það var eiginlega það sem ég vildi draga fram.

Hitt sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom vel inn á í ræðu sinni er samstaðan um landbúnaðarstefnu og hvernig við tölum um atvinnuveginn og undirbúum stefnu stjórnvalda um það. Af því að ég hef aðeins kynnst málefnum landbúnaðarins á öðrum vettvangi — segi þá og bið þingmanninn að fjalla um það í seinna andsvari sínu, ég geng nú ekki hart að honum, herra forseti — hvers vegna okkur mistekst svolítið að mynda um þetta breiða samstöðu. Hvort þingmaðurinn sé ekki sammála því að við eigum að hleypa fleiri aðilum að því að móta þá stefnu, hvort sem þeir heita aðilar vinnumarkaðarins, samtök verslunarfyrirtækja, iðnaðar eða bænda. Ég er ekki að tala um að slík samtök eigi að ráða málefnum bændanna, heldur þurfum við á því að halda að hafa miklu stærri hóp.

Ég minni á að til skamms tíma höfðum við verðlagsnefnd búvöru þar sem aðilar vinnumarkaðarins áttu aðild að, fulltrúar ASÍ og fulltrúar BSRB. Ég hreinlega fullyrði það, herra forseti, ég efast um að fulltrúar þeirra launþegasamtaka hafi í annan tíma náð fram öðrum eins kjarabótum fyrir umbjóðendur sína en að taka þátt í stefnumótun fyrir landbúnaðinn. (Gripið fram í.)