145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[16:10]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta umræðuefni er bæði tímabært og brýnt og hv. þm. Björt Ólafsdóttir á þakkir skilið fyrir að taka það upp. Allar kynslóðir á Íslandi hafa slitið sér út við það frá því að land byggðist að búa í haginn fyrir komandi kynslóð. Við höfum litið á það sem sjálfsagðan hlut að ný kynslóð taki við betra búi en kynslóðin á undan fékk í arf.

Nú hefur það gerst í fyrsta skipti í sögu okkar að kynslóðin sem er að taka við hefur það efnahagslega verra en sú sem er að skila af sér. Aldamótakynslóðin svokallaða sem nú er að herða sig til manns hefur fengið minna svigrúm til að spreyta sig í lífinu en kynslóðirnar á undan. Ungt fólk berst í bökkum við að koma sér upp húsnæði á háum lánsvöxtum. Ungu fólki hefur fjölgað mest á atvinnuleysisskrá. Barna- og vaxtabætur ungs fólks lækka. Fleira ungt fólk er á örorkubótum á Íslandi en í nágrannalöndunum. Samtímis er þrengt að framfærslumöguleikum ungs fólks í námi með hertum reglum um námslán og fyrirhuguðum breytingum á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það er með öðrum orðum ekki sjálfgefið lengur að ungt fólk sem menntar sig geti eignast heimili og fundið vinnu við hæfi eins og okkur sem erum á góðum aldri hefur hingað til fundist sjálfsagt. Ungt fólk býr ekki lengur við þá öryggiskennd að framtíðin sé fyrirheit.

Ísland er velmegunarríki með allar forsendur til að forgangsraða í þágu komandi kynslóðar, byggja hér upp sanngjarnan húsnæðismarkað, öflugt námslánakerfi sem raunverulega framfleytir fólki, bæta (Forseti hringir.) fæðingarorlofið, brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og koma á gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu sem er mikið hagsmunamál fyrir ungar fjölskyldur.

Við eigum að geta breytt þessu, virðulegi forseti. Gerum það.