145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[23:04]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum voru settar við efnahagshrunið 2008 til varnar íslensku efnahags- og fjármálalífi gegn aðilum sem vildu, og vilja enn, hagnast á vöxtum og spákaupmennsku með gjaldeyri. Ástæðan fyrir höftunum var sú að við áttum ekki peninga í gjaldeyri til að losa þetta fólk út úr hagkerfinu. Þess vegna voru sett gjaldeyrishöft. Þessir fjármálaspekúlantar og fjárfestar hafa allar götur síðan 2008 mótmælt þessum höftum og ýmis samtök hér innan lands hafa tekið undir það og virðast ekki skilja hvers vegna höftin eru til staðar. Þau eru til staðar okkur til varnar, almenningi til varnar. Þau eru hér af illri nauðsyn.

Nú vilja menn losa um höftin og enn eigum við ekki gjaldeyri fyrir öllu því fjármagni sem vill út. Þá þarf að forgangsraða. Ég er á því að forgangsraða í þágu innlendra aðila, ekki erlendra eða skráðra erlendis, (Forseti hringir.) eins og nú er gert, þótt þeir þurfi að borga sig út á niðursettum prís, þó ekki eins hagstæðum fyrir íslenskan almenning eða skattgreiðendur og tillögur voru um haustið 2008, settar fram af Lilju Mósesdóttur. Það hefði betur verið hlustað á hennar rök.

En aðeins eitt, nú er verið að tala um að losa 200 milljarða út úr hagkerfinu (Forseti hringir.) í gjaldeyri. Íslenska lífeyriskerfið í heild sinni hefur á undanförnum tveimur missirum fengið að losa 40–50 milljarða og enn eru þar höft. Ég mótmæli (Forseti hringir.) forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og þeim forsendum sem þetta er unnið á af hennar hálfu.