145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

samkeppnisstaða álfyrirtækja.

[15:18]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þessari spurningu er fljótsvarað: Það er einmitt vegna þess misræmis sem er á milli flutningsverðs hér og í Noregi sem ákveðið var að hefja þessa greiningu. Þar getur hvort tveggja komið til, við þurfum, og það var ásetningur minn varðandi þessa atvinnugrein sem og aðrar, að tryggja að hún standi jafnfætis því sem er annars staðar. Á sama fundi, eins og þingmaðurinn bendir réttilega á, komu fram þær skoðanir ráðgjafa KPMG og ábendingar til álfyrirtækjanna, mundi ég halda, og íslenskra stjórnvalda að skoða hvort ríkisstyrkirnir sem viðhafðir eru í Noregi standist ríkisstyrkjareglur Evrópusambandsins. Það er einmitt liður í þessari skoðun.

Til að svara spurningu hv. þingmanns skýrt: Nei, það er ekki ætlun að fara að niðurgreiða hér með óeðlilegum hætti með einum eða neinum hætti heldur erum við að skoða stöðu þessara fyrirtækja almennt og samkeppnisstöðu þeirra. Að sjálfsögðu munum við taka þeim ábendingum sem fram komu á fundinum og skoða það með tilliti til þess.